143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst það hryllilega neyðarástand sem blasir við á Filippseyjum eiga erindi í umræðu í þingsal. Það minnir okkur á skyldur okkar gagnvart bræðrum og systrum um allan heim. Þúsundir látinna og milljónir heimilislausra á fjarlægum slóðum geta fyllt okkur vanmáttarkennd og þeirri tilfinningu að það sé lítið eða ekkert sem við getum gert sem skiptir máli. En það er langt í frá, við getum staðið okkur gagnvart meðbræðrum okkar í heimsþorpinu með því að taka virkan þátt í þróunaraðstoð þannig að við séum ekki eftirbátar annarra vestrænna þjóða með því að standa vel að hjálparstarfi og, síðast en ekki síst, með því að taka alvarlega þau viðvörunarmerki sem náttúran sendir okkur með sívaxandi þunga frá ári til árs.

Ef einhver er enn þá efasemdamaður um áhrif hnattrænnar hlýnunar ætti sá hinn sami að skoða ástandið í Karíbahafi, á Kyrrahafi og Indlandshafi þar sem hækkandi yfirborð sjávar verður sífellt meira áberandi eða fjallahéruð Andesfjalla eða Himalajafjalla þar sem samfélög glíma við flóð vegna bráðnunar jökla, skoða hvað er að gerast á suðurpólnum og norðurpólnum, skoða áhrifin á héruðin í kringum ósa Mekong-, Nílar-, Ganges- og Amazon-fljótanna, skoða svipaða ofurfellibyli í Suður-Ameríku, ekki gleyma áhrifunum á gresjur Afríku, muna eftir veðurfari í Mexíkóflóa og nýlegum flóðum á austurströnd Bandaríkjanna. Þessu þurfa menn að velta fyrir sér áður en þeir fara að hugsa mikið um tækifærin fyrir Íslendinga sem fylgja hnattrænni hlýnun og áður en þeir tala mikið um þau upphátt — og áður en menn leggjast í stórfellda áætlanagerð um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)