143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég undrast nokkuð viðbragðsflýti og afköst virðulegs forseta að ná að komast að þeirri niðurstöðu á innan við einum sólarhring að ekkert sé við það að athuga að starfandi þingmaður sé ráðinn aðstoðarmaður ráðherra. Ég tek því þá þannig að forseti muni með glöðu geði hjálpa upp á Stjórnarráðið með því að greiða viðkomandi laun nema það sé hluti af niðurstöðu forseta að viðkomandi þingmaður sé fullkomlega tveggja manna maki og geti unnið hér 100% vinnu á Alþingi og aðra 100% vinnu uppi í Stjórnarráði.

Þetta snýst um ábyrgðarspurninguna en að sjálfsögðu ekki um launagreiðslur. Spurningin er hvernig það fer saman að alþingismaður sem undirritar drengskaparheit að stjórnarskránni, sem felur í sér að viðkomandi skal fylgja sannfæringu sinni og engu öðru og ekki taka við tilmælum frá öðrum, sé ráðinn aðstoðarmaður sem lýtur beinu boðvaldi viðkomandi ráðherra og starfar samkvæmt erindisbréfi sem honum er sett sem felur í sér skyldurnar sem aðstoðarmaðurinn hefur þá með höndum.

Allt öðru máli gegndi ef viðkomandi maður færi í launalaust leyfi sem þingmaður og varamaður hans starfaði hér á meðan. Einhverjir kynnu að gera athugasemdir við þetta fyrirkomulag engu að síður en það væri þó augljóslega öðruvísi þegar snýr að ábyrgðarspurningunni. Mér finnst þetta vera afgreitt með allt of léttvægum hætti. Ég tel að þetta sé mikilvægt grundvallarmál. Það hefur ekkert með það að gera hvaða viðkomandi einstaklingur á í hlut né heldur hvaða ráðherra ræður hann heldur á Alþingi að taka til skoðunar hvort þetta sé eðlilegt fyrirkomulag, hvort í því geti ekki falist vandamál þegar kemur að ábyrgðarskyldunni og stöðu manna í tveimur mismunandi hlutverkum. Mér nægja ekki svör af því tagi án (Forseti hringir.) rökstuðnings sem komu frá forseta áðan eftir innan við sólarhringsathugun, væntanlega, á málinu.