143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[15:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneytinu til stofnana sem undir það heyra. Frumvarpið er liður í áformum um að bæta þjónustu og auka skilvirkni þannig að verkefnum sé fremur sinnt af þeim stofnunum sem eru best til þess eru fallnar með tilliti til þekkingar og samlegðar verkefna.

Frumvarpið er líka í samræmi við stjórnarsáttmálann og í samræmi við ýmislegt sem gert hefur verið í stjórnsýslunni á undanförnum árum sem er sú tilraun að færa þjónustu nær almenningi, færa þjónustu út í hérað og tryggja það að við náum sem bestri nýtingu fjármagns en einnig að við náum að vinna hlutina þannig að þeir nýtist þeim sem eiga að njóta þjónustunnar, þ.e. almenningi, sem allra best.

Rétt er að geta þess að á árinu 2012 var farið í mjög umfangsmikla vinnu við að greina kjarnastarfsemi innanríkisráðuneytisins. Þá var skoðað á mjög gagnrýninn hátt þau verkefni sem unnin eru í ráðuneytinu með sérstöku tilliti til þess hvort þau verkefni gætu betur átt heima annars staðar og hvort samlegðin af þeim gæti verið meiri ef þau væru vistuð í öðrum stofnunum. Greiningin leiddi í ljós betri samlegð, aukna skilvirkni og betri þjónustu með því að flytja ákveðin verkefni til stofnana ráðuneytisins, en þær stofnanir búa að sjálfsögðu yfir mikilli fagþekkingu og vinna nú þegar að verkefnum sem tengjast þessum þáttum. Þá var sérstaklega litið til þess sem hefur verið sameiginlegt markmið allra stjórnmálaflokka í talsvert langan tíma, þ.e. sá vilji löggjafans að færa verkefni í auknum mæli út á land og tryggja það að miðlæg stjórnsýsla og miðlæg þjónusta geti eins verið þar og í Reykjavík. Sérstaklega var litið til þess í því sambandi að þjónustan væri aukin í héraði og ákveðin verkefni sem hingað til hafa verið talin einungis geta verið leyst frá Reykjavík, að þeim væri skoðaður staður annars staðar.

Önnur verkefni hafa auðvitað áður verið flutt frá ráðuneytinu til stofnana og hefur það gefið svo góða raun að ástæða er til að halda áfram. Til dæmis voru fyrir nokkrum árum fjölmörg verkefni færð til sýslumannsembætta, eins og gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir. Meðal þeirra verkefna voru leyfisveitingar til að reka útfararþjónustu, leyfi til ættleiðinga, flugrekstrarleyfi, leigubílaleyfi, löggilding dómtúlka og skjalaþýðenda og löggilding fasteignasala svo einhver dæmi séu tekin, og nú þykir okkur að sjálfsögðu eðlilegt að þeim verkefnum sé sinnt með þessum hætti.

Ég sem innanríkisráðherra og ríkisstjórnin höfum hug á því að halda þeirri vegferð áfram og þess vegna leggjum við til að þau verkefni sem hér er fjallað um í fyrirliggjandi frumvarpi verði flutt eða framkvæmd þeirra breytt.

Ef við lítum aðeins á efni frumvarpsins — ég tel að hver grein þar sé nokkuð gagnsæ og menn geti mjög auðveldlega áttað sig á þeim verkefnum sem er verið að flytja með því að fara yfir frumvarpið — þá gerir það til dæmis ráð fyrir að Útlendingastofnun taki að sér hlutverk sem innanríkisráðherra hefur í dag við veitingu ríkisborgararéttar en kæruleið myndist í framhaldi af því til innanríkisráðuneytisins. Útlendingastofnun sinnir nú þegar nokkuð stóru hlutverki í þessu verkefni og oft er um sömu einstaklinga að ræða og sóttu áður um dvalarleyfi eða hæli hjá stofnuninni. Allar umsóknir eru því sendar frá ráðuneytinu til umsagnar hjá Útlendingastofnun. Með flutningi verkefnisins er þannig komið í veg fyrir tvíverknað og um leið opnað fyrir að synjun á svo mikilvægum réttindum sem ríkisborgararéttur er fái málsmeðferð á tveimur stjórnsýslustigum. Það er líka einkennandi fyrir þetta frumvarp, virðulegi forseti, að tryggja réttaröryggi almennings með þeim hætti að hægt sé að kæra eða fá málsmeðferð á tveimur stjórnsýslustigum.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að náðunarnefnd taki bindandi ákvörðun um úrlausn kærumála um synjun á reynslulausn og synjun á samfélagsþjónustu en gefi áfram einungis rökstudda tillögu til ráðherra um úrlausn náðunarbeiðna. Þá verði Fangelsismálastofnun falið vald til að ákveða hvort fullnusta eigi dóma hér á landi sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð. Lög um fullnustu refsinga í þeim löndum eru nánast samhljóða og gott dæmi um samstarf þeirra ríkja. Slíkar ákvarðanir eru nú teknar í ráðuneytinu en að okkar mati er hagfelldara að þær séu teknar hjá Fangelsismálastofnun þar sem stofnunin hefur yfir að ráða skipulagi og framkvæmd fangelsismála, ber ábyrgð á fullnustu refsinga og er best í stakk búin til að meta þær beiðnir sem berast frá öðrum Norðurlöndum. Þá er þetta í samræmi við framkvæmd í Noregi og Danmörku þar sem ráðuneytin þar taka ekki lengur slíkar ákvarðanir.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að sýslumönnum verið falið að annast leyfisveitingar til opinberra fjársafnana. Þetta er í raun og veru, eins og ég sagði áðan, mjög víða í frumvarpinu og kannski tengist það að miklu leyti þeirri umræðu sem hér hefur verið tekin um hlutverk sýslumannanna, þ.e. að taka verkefni sem áður hafa verið vistuð í innanríkisráðuneytinu og færa þau til þeirra öflugu þjónustustofnana í héraði. Lagt er til að sýslumönnunum verði falið að annast leyfisveitingar til opinberra fjársafnana. Gildandi lög kveða á um að ráðuneytið veiti leyfi fyrir fjársöfnunum á götum eða í húsum. Aðrar fjársafnanir eru háðar leyfi viðkomandi lögreglustjóra. Hagfelldara er að okkar mati að leyfisveitingar fyrir hvers konar fjársafnanir séu háðar leyfi viðkomandi sýslumanns á hverjum stað. Þess vegna er lagt til að þannig verði haldið á málum.

Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir að sýslumönnum verði falið að skera endanlega úr um sérstök framlög vegna framfærslu barna. Sérstök framlög eru vegna skírnar barns, fermingar og alls kyns hluta sem taldir eru upp í frumvarpinu og geta lotið að smærri málum. Þetta eru ekki mjög mörg mál á ári hverju í ráðuneytinu en talið er mikilvægt að það verði hlutverk sýslumanna að halda utan um þau verkefni. Ráðuneytið mun gefa út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir fyrir slíka þætti. Þetta eru smærri upphæðir, á bilinu 20 þús. kr. til tæplega 100 þús. kr. Það verkefni komi sem sagt einnig beint inn í hérað til sýslumanna á hverjum stað. Einhver gæti sagt: Er þetta ekki óvarlegt miðað við það að verið er að leggja af kæruleið til ráðuneytisins í þessum efnum? Í þessu tilviki er það ekki talið, sem ræðst af því að fjárhæðirnar sem hér um ræðir eru ekki háar.

En það er fleira sem snýr að sýslumönnunum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sýslumönnum verði einnig falin umsýsla með málefnum lögmanna. Innanríkisráðuneytið sinnir því hlutverki í dag lögum samkvæmt og sinnir ýmsum verkefnum sem snúa að lögmönnum. Sem dæmi má nefna að ráðuneytið annast leyfisveitingar til lögmanna. Það tekur til geymslu óvirk lögmannsleyfi og afhendir þeim aftur óski þeir þess. Þá gefur ráðuneytið út vottorð um að héraðsdómslögmaður uppfylli skilyrði til að mega þreyta prófraun í Hæstarétti og fellir niður lögmannsréttindi þegar það á við.

Sýslumenn eru að okkar mati að fullu bærir til að taka við þessum verkefnum enda annast þeir í dag sambærileg verkefni og er nærtækast í því sambandi að nefna málefni fasteigna- og skipasala. Samhliða þessari yfirfærslu verkefna myndast einnig það sem er eftirsóknarvert að mati innanríkisráðuneytisins, þ.e. kæruleið til ráðuneytisins. Samkvæmt frumvarpinu verður sýslumönnum einnig falin skráning og eftirlit með trúfélögum og lífsskoðunarfélögum. Lagt er til að sýslumaður í stað ráðuneytisins skrái trúfélög og lífsskoðunarfélög og ákveði hvort skilyrði laganna um skráningu trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga séu uppfyllt. Samhliða myndast líkt og í áðurnefndum dæmum kæruheimild til ráðuneytisins. Sýslumönnum verður einnig falið að veita leyfi til dreifingar á ösku látinna manna og taka ákvarðanir um kvaðabindingu eða niðurfellingu á kvöð á arfi. Aðkoma sýslumanna í málum tengdum látnum einstaklingum og aðstandendum þeirra er margvísleg og því eiga framangreind verkefni samleið með verkefnum sýslumanna á því sviði.

Loks verður sýslumönnum falið að halda málaskrá yfir mál tengd lögræðislögum. Í lögræðislögunum eru ákvæði um að haldnar skuli skrár yfir lögræðissvipta menn. Þá skulu yfirlögráðendur, þ.e. sýslumenn, hver í sínu umdæmi halda gerðabækur sem hafa skulu að geyma ákvarðanir þeirra samkvæmt lögunum. Í því felst t.d. eftirlit með störfum skipaðra lögráðamanna og ráðsmanna.

Í frumvarpinu er áfram lagt til að yfirlögráðendur haldi gerðabækur en til viðbótar þeim bókum komi til málaskrár sem þeir haldi. Jafnframt verði ráðuneytinu heimilt að koma á fót miðlægri málaskrá á rafrænu formi sem yfirlögráðendur halda. Í þá miðlægu skrá væri t.d. hægt að skrá ákvarðanir yfirlögráðenda og upplýsingar úr lögbundnum skrám og Lögbirtingablaði og annað sem yfirlögráðendur telja þörf á.

Ráðuneytið mun samkvæmt frumvarpinu fela Þjóðskrá Íslands að gera þessa rafrænu málaskrá og leggja fyrir að skráin verði þannig úr garði gerð að auðvelt verði að bæta henni við nýtt starfskerfi sýslumanna sem ráðuneytið hyggst fela Þjóðskrá Íslands að gera á grunni núverandi kerfa sem til eru hjá sýslumönnum.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir helstu þættina sem lúta að þeirri breytingu sem umrætt frumvarp felur í sér. Mín skoðun er sú að frumvarpið marki ákveðin tímamót, ákveðna viðleitni í þá átt að færa verkefni frá ráðuneytum til annarra stofnana og þá sérstaklega stofnana er starfa ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það sé mikilvægt, það er ekki einungis mikilvægt fyrir landsbyggðina að fleiri verkefni farið þangað heldur er einnig mikilvægt að tryggja að þeim stofnunum er tengjast til dæmis sýslumönnum verði gert kleift að eflast og styrkjast til að þær ráði við umrædd verkefni og verði raunverulegar þjónustustofnanir í héraði.

Það er einnig skoðun okkar að sá flutningur verkefna sem hér er fjallað um miði allur að því að auka samlegð og hraða málsmeðferð með því að fela þeim stofnunum sem hafa mikla þekkingu á viðkomandi verkefnum eða sinna nú þegar sambærilegum verkefnum afgreiðslu þeirra. Ráðuneytið mun auðvitað eftir sem áður fara með yfirstjórn þeirra málaflokka sem í frumvarpinu greinir, það er engin breyting þar á. Samhliða því að verkefni verði færð frá ráðuneytinu til undirstofnana þess er jafnframt áformað að auka sérhæfingu og verkaskiptingu á meðal þeirra. Þannig er gert ráð fyrir að ákveðnum sýslumannsembættum verði falin afgreiðsla mála í stað þess að sams konar mál séu afgreidd hjá mörgum embættum. Stefnt er að því að aukið hagræði náist með þessu og þannig hraðari afgreiðsla fyrir borgara landsins. Þessum breytingum er ýmist ætlað að taka gildi 1. janúar eða 1. apríl 2014.

Eins og ég hef ítrekað komið inn á er í raun og veru mikil breyting fólgin í frumvarpinu sem lýtur að því að koma til móts við þær eðlilegu kröfur samfélagsins í dag að hægt sé að kæra sumar stjórnvaldsákvarðanir til æðra stjórnvalds. Það er mjög mikilvægur þáttur í frumvarpinu og ein ástæða fyrir því að við veljum að fara þá leið.

Eins og kemur fram í frumvarpinu í umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, skrifstofu opinberra fjármála, er ekki gert ráð fyrir að þessar breytingar hafi áhrif á fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga enda munu í einhverjum tilvikum fjárheimildir færast frá ráðuneyti til viðkomandi stofnunar. Umfangsmesta breytingin er færsla ríkisborgararéttar til Útlendingastofnunar og gert er ráð fyrir að fjárheimild sem nemur kostnaði við eitt og hálft stöðugildi fylgi verkefninu. Önnur verkefni eru umfangsminni og í þeim tilvikum flytjast útgjöldin frá ráðuneyti niður til viðkomandi stofnana.

Ég óska eftir því og vona að þingheimur taki frumvarpinu vel, sjái kostina í því að vinna hlutina með þessum hætti. Ég vona innilega að okkur auðnist að gera þetta í fleiri ráðuneytum og við fleiri verkefni, að vinna þannig með þau að við séum að skoða það hvernig kerfið, sú þjónusta sem við viljum veita almenningi færist nær honum og við tryggjum að við sinnum verkefnunum eins vel og mögulegt er. Og eins sé ég þetta sem ráðherra sveitarstjórnarmála sem mikið mál fyrir sveitarfélögin í landinu og fyrir allan almenning sem á þá að geta fengið ákveðin verkefni nær sér. Ég vona og treysti því að um þetta verði góð samstaða hér og vona að okkur takist að vinna fleiri verkefni á þessum nótum.