143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[16:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara í sem stystu máli fagna þessu frumvarpi. Ég held þetta sé ekki í fyrsta skipti sem innanríkisráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið þar á undan, hefur forgöngu um að færa verkefni til sýslumanna. Ég man ekki betur en það hafi verið gert fyrir nokkru síðan. En mér finnst þetta bara alveg frábært, ef ég á að nota eitt orð yfir það, nema eitt, það er eitt sem veldur mér áhyggjum og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það. Það varðar aukin verkefni til Útlendingastofnunar. Nú hefur það því miður verið þannig undanfarið, að minnsta kosti hefur manni heyrst það, að það gangi illa og hægt að afgreiða mál þaðan og það hefur fyrst og fremst valdið fólki sem hingað kemur vandræðum og svo okkur líka að hluta til því að það er ekki gott eða þægilegt fyrir okkur að búa fólki, sem ekki fær afgreiðslu mála sinna fljótt, sæmileg skilyrði.

Það er það eina sem ég hef áhyggjur af í sambandi við þennan flutning, að þarna er verið að færa Útlendingastofnun ný verkefni sem skipta mjög miklu máli og það skiptir máli að þau séu afgreidd fljótt og vel. Verður þá örugglega séð fyrir því að Útlendingastofnun geti þá sinnt þessu nýja hlutverki og eins því hlutverki sem hún hefur fyrir?