143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

verslun með áfengi og tóbak.

156. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, og ætla að byrja á því að rekja meginástæðuna fyrir því að frumvarpið er komið fram.

Þann 11. desember 2012 gaf EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit í málinu HOB-vín ehf. gegn ÁTVR. Megininntak álitsins var að innlend lög og stjórnvaldsfyrirmæli, sem fela í sér ósamræmdar reglur í skilningi tilskipunar um samræmingu laga um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla, beri að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA og hinna aðildarríkjanna ef þær eiga að öðlast gildi. Þessi tilskipun hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Í tilskipuninni er áskilið að form þessarar tilkynningar skuli vera með ákveðnum hætti og að hin ósamræmdu innlendu ákvæði — eins og þetta heitir á lagamálinu — eigi að réttlæta af þeim ástæðum sem greindar eru í 18. gr. tilskipunarinnar, t.d. því að tryggja almannaheilbrigði.

Í kjölfar álits EFTA-dómstólsins tók Eftirlitsstofnun EFTA málið upp við íslensk stjórnvöld og óskaði eftir upplýsingum um það hvernig brugðist yrði við álitinu. Viðbrögð mín voru þau að í júní sl. skipaði ég starfshóp sem fékk það verkefni að endurskoða 11. gr. laganna og gera tillögur að breytingum á ákvæðinu. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum í september.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 11. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, en ákvæðið felur í sér heimildir ÁTVR til að hafna því að taka áfengi í sölu.

Samkvæmt núgildandi lögum er ÁTVR heimilt að hafna vörum sem innihalda gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar eða gefa til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu, særi blygðunarkennd eða brjóta á annan hátt í bága við almennt velsæmi, meðal annars með skírskotun til ofbeldis, trúar, ólöglegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar og refsiverðrar háttsemi. Þá var það nýmæli tekið upp árið 2011 að ÁTVR væri heimilt að hafna vöru sem er keimlík annarri vöru á almennum markaði.

Í þessari upptalningu á heimildum ÁTVR til höfnunar felast ýmis matskennd viðmið sem sum hver eiga lítið skylt við almannaheilbrigði. Þess vegna er í frumvarpinu lagt til að ákvæðið verði byggt upp með öðrum hætti en nú er. Lagt er til að talið verði upp í níu stafliðum við hvaða aðstæður ÁTVR er heimilt að hafna áfengi vegna vörunnar sjálfrar, umbúða hennar eða markaðssetningar. Allar heimildir ÁTVR til höfnunar samkvæmt frumvarpinu byggjast á sjónarmiðum um almannaheilbrigði.

Í stuttu máli er með ákvæðinu stefnt að því að forða því að áfengi höfði sérstaklega til barna eða ungmenna yngri en 20 ára. Þá er ekki heimilt að markaðssetja áfengi undir þeim formerkjum að það hafi lækningarmátt. Öll hvatning til óhóflegrar neyslu er einnig óheimil og einnig er óheimilt að tengja neyslu áfengis aðstæðum sem skapa slysahættu eða hvetja til refsiverðrar háttsemi.

Ef meginbreytingartillaga frumvarpsins er tekin saman felur hún í sér eftirfarandi:

1. Hin matskenndu viðmið um að heimilt sé að hafna vörum sem innihalda, eins og það heitir í lagatextanum í dag, „gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar“ eru felld brott.

2. Hin matskenndu viðmið um að heimilt sé að hafna vörum sem, eins og það heitir í lagatextanum, „særa blygðunarkennd eða brjóta á annan hátt í bága við almennt velsæmi“ eru felld brott — þessi matskenndu viðmið.

3. Felld er brott heimild ÁTVR til að hafna vörum sem hafa skírskotun til trúar, stjórnmálaskoðana eða mismununar. Einnig er lagt til að skýrt verði betur í lögum við hvaða aðstæður ÁTVR er heimilt að hafna áfengi sem telst of líkt annarri vöru.

Ég tel að með frumvarpi þessu séu heimildir ÁTVR til að hafna áfengi gerðar mun skýrari en nú er.

Ég vil að lokum ítreka að verði frumvarpið að lögum ber að tilkynna þær reglur sem í því felast til Eftirlitsstofnunar EFTA á því formi sem áskilið er í tilskipuninni um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla.

Lögin um verslun með áfengi og tóbak sem tóku gildi á árinu 2011 hafa ekki verið tilkynnt með þessum formlega hætti og samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins verður að telja að þau mundu ekki standast skoðun Eftirlitsstofnunar EFTA. Þannig virðist ekki verða hjá því komist að endurskoða þessar reglur og aðlaga þær að umræddri tilskipun.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.