143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

kosning nýrra stjórna ríkisfyrirtækja.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir skýringum á bréfi sem hann sendi okkur, formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, í lok síðustu viku þar sem hæstv. ráðherra gerir grein fyrir því að tekin hafi verið ákvörðun um að boða til hluthafafunda í nokkrum af stærri félögum og fyrirtækjum í eigu ríkisins og kjósa nýjar stjórnir. Gert er ráð fyrir, samkvæmt bréfinu, að boðað verði til funda í næstu viku og fundir haldnir um það bil viku síðar. Um er að ræða félögin Landsvirkjun, Rarik, Isavia og Íslandspóst og óskar ráðherra eftir því að minni hlutinn skili tilnefningum um sína fulltrúa í fimm manna stjórnir.

Skipunartími þeirra stjórna sem nú sitja er ekki runninn út og venjan hefur verið sú að slíkur skipunartími klárist og ný ríkisstjórn ráði meirihlutaskipan á næsta aðalfundi. Því vil ég inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvað veldur þessum flýti. Það er mikilvægt að fá þær skýringar. Mér finnst rétt að taka það fram að hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent hæstv. ráðherra formlegt bréf þar sem hann óskar þessara skýringa. Í ljósi þess skamma frests sem okkur er gefinn í bréfi hæstv. fjármálaráðherra tel ég best að hann gefi þinginu skýringar á þessum flýti hér og nú, segi okkur á Alþingi af hverju honum liggur svo á að breyta skipan stjórna þessara fjögurra opinberu félaga og fyrirtækja þvert á allar venjur og hefðir.

Þessi spurning verður ekki síst knýjandi þegar þær fregnir berast af haustfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í gær að hæstv. iðnaðarráðherra hafi haldið þar merka ræðu og sagst vera orðin ansi óþreyjufull eftir því að tiltekin verkefni á borð við álver í Helguvík verði að veruleika og að Landsvirkjun framfylgi þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að nýta orkuauðlindir landsins til atvinnuuppbyggingar og aukins hagvaxtar og sagði hún að árangurinn í þeim efnum væri algjörlega óviðunandi.

Getur verið, virðulegi forseti, að ætlunin sé að breyta eigandastefnu (Forseti hringir.) Landsvirkjunar og þess vegna liggi svona á að breyta skipun stjórna?