143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

kosning nýrra stjórna ríkisfyrirtækja.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hefði frekar haldið að einhver segði það um fjármála- og efnahagsráðherra að honum lægi greinilega ekkert á að skipa nýjar stjórnir vegna þess að það var kosið í apríl og ný ríkisstjórn mynduð í maí og síðan er bráðum liðið hálft ár. En það er auðvitað alvanalegt að þegar stjórnarskipti verða og nýr meiri hluti myndaður að skipt sé um stjórnir í opinberum fyrirtækjum. Ég man ekki betur en hv. þingmaður, sem ber upp fyrirspurnina, hafi t.d. skipt um stjórn í Lánasjóði íslenskra námsmanna áður en skipunartími þeirrar stjórnar rann út á sínum tíma, árið 2009. Þannig man ég það. Ég held líka að það séu til fjölmörg dæmi um að þegar verða meirihlutaskipti sé að nýju skipað í stjórnir. Mér finnst þetta því ekki vera sérstakt tilefni til að vera með fullyrðingar um að ráðherrann sé eitthvað að flýta sér. Mér finnst það eiginlega vera þveröfugt. Þetta er mál sem ég ætlaði fyrir löngu að vera búinn að koma á dagskrá og kalla til funda. Það er ekkert óeðlilegt við að kallað sé til hluthafafunda og skipt um stjórnir þó að enn sé nokkur tími fram að aðalfundi í viðkomandi félögum.

Samhliða því að ég óskaði eftir að fulltrúar þingflokkanna skipuðu eða tilnefndu sína fulltrúa lét ég einmitt fylgja með eigendastefnu ríkisins og það stendur ekki til að gera breytingar á henni. Það er ekkert samhengi á milli þess að nú stendur til að halda hluthafafund í þessum félögum og að rætt var um stefnu Landsvirkjunar á öðrum fundi í gær.