143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

kosning nýrra stjórna ríkisfyrirtækja.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð aðeins að leiðrétta hæstv. ráðherra því að það er auðvitað mismunandi milli félaga og stofnana hvernig þessu er háttað. Í tilviki Lánasjóðs íslenskra námsmanna stendur beinlínis í lögum að skipunartími stjórnar fylgi skipunartíma ráðherra. Svo er ekki um þessi fyrirtæki og félög, þar er skipunartími til tiltekins tíma og það hefur hreint ekki verið venjan, a.m.k. ekki hjá síðustu ríkisstjórn að skipta út stjórn samhliða nýrri ríkisstjórn heldur var það gert á réttum tíma lögum samkvæmt. Ég er því algjörlega ósammála þeirri túlkun hæstv. ráðherra að þetta sé alvanalegt.

Ég hefði haldið að við værum komin á það stig í þessu landi okkar að eðlilegast væri bara að fylgja skipunartíma stjórna. Það er ekki laust við að maður óttist að hér sé enn eitt afturhvarfið á ferð, afturhvarfið sem er eiginlega orðið nýtt vörumerki þessarar ríkisstjórnar, afturhvarf til aukinna flokkspólitískra taka á stjórnum félaga og fyrirtækja. Við höfum auðvitað dæmi, til að mynda úr Ríkisútvarpinu, og ég spyr: Er þetta til marks um það, hæstv. fjármálaráðherra?