143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

pólitísk afskipti af stjórn Landsvirkjunar.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa brýningu frá hv. þingmanni. Við deilum þeirri skoðun að það skiptir máli að Landsvirkjun sé rekin með arðsemissjónarmið og langtímasjónarmið að leiðarljósi. Ég tel hins vegar að við hljótum jafnframt að deila þeirri skoðun að harma beri að ekki skuli hafa orðið af þeirri iðnaðaruppbyggingu sem við vonuðumst til þegar við gengum frá fjárfestingarsamningi um álver í Helguvík árið 2009 hér í þessum sal. Þó að þáverandi stjórnarflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar væru ekki sammála um að styðja við þann samning man ég ekki betur en að Samfylkingin hafi að uppistöðu til stutt þann samning heils hugar.

Síðan eru liðin mörg ár og ég get tekið undir með iðnaðarráðherranum að það er mjög miður að ekki skuli hafa orðið af þeirri uppbyggingu. Nú hefur það verið þannig í því tiltekna máli að fyrst og fremst hafa verið samningar við aðra orkuframleiðendur sem hafa valdið því að tafir hafa orðið í málinu. Það breytir því ekki að að svo miklu leyti sem Landsvirkjun eða aðrir geta komið að því að afla orkunnar skiptir máli að unnið sé fumlaust að framgangi slíkra mála.

Það stendur ekki fyrir dyrum, eins og hv. þingmaður gefur í skyn, að gera einhverjar áherslubreytingar, stefnubreytingar, í stjórn Landsvirkjunar hvað snertir kröfuna um arðsemi. Mér finnst hins vegar hv. þingmaður reiða býsna hátt til höggs þegar hann sakar núverandi stjórnarflokka um að hafa uppi áform um að koma meiri pólitík inn í stjórnina eða framkvæmd Landsvirkjunar þegar það er fyrrverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar sem er stjórnarformaður Landsvirkjunar í dag.