143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

pólitísk afskipti af stjórn Landsvirkjunar.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem okkur skortir helst í efnahagslífinu í dag er aukin fjárfesting. Eftirspurn er af skornum skammti í augnablikinu og það veldur því að ekki verða til ný störf og ríkið líður fyrir, vinnumarkaðurinn á Íslandi líður fyrir.

Stóru tækifærin í frekari uppbyggingu í fjárfrekum iðnaðarverkefnum eru meðal annars tengd verkefnum á borð við það sem hefur verið lengi í vinnslu í Helguvík, þar sem þegar hefur verið ráðist í fjárfestingu í kringum 20 milljarða til undirbúnings, og önnur sambærileg verkefni þótt þau kunni að vera á miklu smærri skala. Í því sambandi skiptir máli að við höfum getuna og viljann til að afhenda orku og láta alla þætti málsins ganga upp á sama tíma. Við viljum að sjálfsögðu að Landsvirkjun starfi áfram eftir eigendastefnunni með arðsemissjónarmið að leiðarljósi en við eigum líka að hafa eftirlit og aðhald með því að (Forseti hringir.) Landsvirkjun verði ekki frekar en önnur orkufyrirtæki í landinu einhvers konar hindrun í vegi fyrir því að iðnaðaruppbygging haldi (Forseti hringir.) áfram í landinu.