143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

hækkun skráningargjalda í háskólum.

[10:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda, hv. þingmanni, fyrir spurninguna og gefa mér tækifæri til að leiðrétta þetta mál. Það er rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda, skráningargjöldin hafa verið hækkuð og er það gert að fengnum tillögum háskólanna sjálfra, þ.e. hinna opinberu háskóla. Ég tel rétt að menntamálaráðherra á hverjum tíma samþykki þá tillögu sem kemur frá skólunum sé hún rökstudd með þeim hætti sem gert var og að það þurfi alveg sérstakan rökstuðning til að hafna slíkri tillögu.

Hvað varðar framsetninguna í fjárlögum sem hv. þingmaður nefnir er hér dregin upp nokkuð villandi mynd. Það sem hér er á ferðinni er einfaldlega það að háskólinn fái þarna heimild til að auka tekjur sínar. Að skólunum var beint niðurskurðar- eða aðhaldskröfu upp á 1,5%. Hið bókhaldslega eins og það birtist þýðir að þar með er líka um leið dregið úr aðhaldskröfunni þannig að nettóstaðan bætist sem því nemur, en upphaflega var gerð aðhaldskrafa til skólanna.

Skólarnir fá um leið tækifæri til að auka tekjur sínar með þessum hætti og fyrir því eru málefnaleg rök. Það er tekið saman í fjárlagafrumvarpinu og niðurstaðan er sú að aðhaldskrafan minnkar sem nemur þessum auknu tekjum. Það er það sem skiptir máli fyrir skólann. Hér er því ekki um að ræða einhvers konar dulbúna skattheimtu á nemendur, þetta er eðlilegt gjald og gjaldtaka sem á sér málefnalegan bakgrunn. Það gerir skólunum auðveldara fyrir að mæta þeirri aðhaldskröfu sem að þeim er beint.

Það sem hv. þingmaður er að vísa til er raunverulega bókhaldslegt atriði í fjárlögunum en breytir engu hvað varðar heildarniðurstöðu gagnvart skólunum.