143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

hækkun skráningargjalda í háskólum.

[11:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Grundvöllur þess misskilnings sem hér er uppi er sá að þessi kostnaður er raunverulegur, honum þarf að mæta. Það var þess vegna sem háskólum var heimilað að taka til sín þessar tekjur og þar af leiðandi þurfa þeir ekki að taka aðra peninga sem þeir fá frá ríkissjóði til að standa undir þessum kostnaði. Það er mergur málsins.

Virðulegi forseti. Hér er ekki um neinar bókhaldsbrellur að ræða. Það er einfaldlega uppsetningin í fjárlögunum sem virðist þvælast fyrir hv. þingmanni. Niðurstaða málsins er sú að háskólarnir eru betur settir núna eftir þetta en áður vegna þess að aðhaldskrafan sem að þeim er stefnt minnkar. Það er mergur málsins.

Með öðrum orðum, (Gripið fram í.) kostnaðurinn er raunverulegur og hann fellur til. Háskólarnir geta innheimt þetta gjald til að mæta honum og þurfa því ekki að nota aðra fjármuni sem þeir fá úr ríkissjóði til þess og þar af leiðandi er staða þeirra betri sem því nemur en áður. Annars hefði að þeim verið stefnt sömu niðurskurðarkröfu, þ.e. 1,5%, eins og upp var lagt með en þeim var gert auðveldara að mæta þessu með þessum hætti.