143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ánægjuefni að staðan sé betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að efnahagsleg óvissa er meiri en hún hefur verið í allnokkurn tíma. Það er full ástæða til þess að taka undir áhyggjur hv. þm. Helga Hjörvars og málshefjanda um að mun minni fjárfesting verði til þess að minnka tekjur ríkisins og spyrja um aðgerðir og áætlanir til að snúa því við. Hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu er nánast í sögulegu lágmarki, það hefur aðeins einu sinni verið lægra í sögu landsins.

Ríkisstjórnin hefur horfið frá fjárfestingaráætlun sem að mörgu leyti var mjög metnaðarfull og hefði óneitanlega orðið grundvöllur til að skapa meiri tekjur fyrir þjóðarbúið. Það er fátt um svör hjá ríkisstjórninni í gjaldmiðilsmálum. Það er hins vegar þannig, og blasir við hverjum þeim sem sjá vill, að gjaldmiðillinn er ekki sjálfbær og þeir sem eru að berjast gegn þeirri óumflýjanlegu þróun að við tökum upp alvörugjaldmiðil hér eru því miður, það verður að segjast eins og er, í tapliðinu. Þeir eru að berjast gegn einhverju sem er óumflýjanlegt að verði. Þeir eru í liði með þeim sem héldu því fram að jörðin væri flöt. Það er óumflýjanlegt að þeir tapi þessari baráttu á endanum.

Við verðum að fara að komast úr þessari pattstöðu og taka ákvörðun. Þeir sem fjalla um stöðu Íslands í vestrænni samvinnu, eins og t.d. fyrrverandi forsætisráðherra landsins og formaður Sjálfstæðisflokksins, tala um utanríkisstefnu þjóðarinnar sem ævintýraför. Það sýnir auðvitað að efnahagsleg óvissa er mikil og á því verður að taka. Það verður ekki gert nema með vandaðri áætlunargerð og framtíðarsýn. Það skortir ríkisstjórnina því miður.