143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er góð umræða hér um þessi mál þar sem málshefjandi setti á dagskrá skýrslu um framkvæmd fjárlaga janúar til júlí 2013. Það er að sjálfsögðu enn stór óvissuþáttur sem við höfum ekki séð og það er hvað þarf að setja inn á fjáraukalög 2013 til að við þingmenn sjáum raunverulega hver framúrkeyrsla fyrrverandi ríkisstjórnar var miðað við fjárlög 2012. Það eru ekki öll kurl komin til grafar enn og þó að hv. þm. Helgi Hjörvar brosi hér framan í salinn og mig er staðan enn sú að núverandi ríkisstjórn þarf að loka kosningaloforðaári Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Þannig er staðan en ný ríkisstjórn sér að sjálfsögðu fram á ný tækifæri, nýja tekjuöflunarmöguleika og hagræðingu til að það sé á einhvern hátt hægt að loka því gati sem fyrrverandi ríkisstjórn skilur eftir sig.

Hér kallar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fram að það eigi ekki að finna sökudólga. Við erum ekki að finna sökudólg, staðan núna er sú að halli á ríkissjóði á þessu ári verður að minnsta kosti 30 milljarðar. Ríkisendurskoðandi kom fyrir stuttu fyrir fjárlaganefnd og taldi að 30 milljarða gatinu væri náð nú þegar í september þannig að vandinn er grafalvarlegur. Þess vegna má ekki hafa alvarlega stöðu ríkissjóðs í flimtingum eins og mér finnst sumir þingmenn gera. Við verðum að bæta lagasetningu og við verðum til framtíðar að gera þá kröfu á ríkisstofnanir og embættismenn ríkisins að þeir haldi sig innan fjárlaga. Annars er (Forseti hringir.) það óframkvæmanlegur hlutur að skila hallalausum fjárlögum.