143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

nauðungarsala.

150. mál
[12:02]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir framlagningu þessa frumvarps því að það skapar umræðu um það mikla vandamál sem við stöndum frammi fyrir, þessum fjölda nauðungarsala. Þeim er sem betur fer farið að fækka en ekki nógu mikið. Það er eðlileg krafa þegar fólk á von á leiðréttingu og betri kjörum að það fái að bíða niðurstöðu þess áður en heimili þess eru boðin upp.

En við verðum líka að skoða í því samhengi hvort það sé einhvern tímann raunhæft fyrir hluta af hópnum að hann geti greitt af lánum sínum, hvort hluti af honum vilji einhvern tímann greiða upp þær skuldir þrátt fyrir leiðréttingu og betri kjör. Því miður eru margir komnir í þá stöðu að þeir geta einfaldlega ekki greitt af lánum sínum þrátt fyrir að þeir fái leiðréttingu og þrátt fyrir að þeir fái betri kjör. Margir hafa ekki greitt af lánum sínum í nokkur ár. Þessi vandi er mjög fjölbreyttur og öllu þessu fólki þurfum við að hjálpa, það er nokkuð ljóst.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins gengu meira að segja út á það í aðdraganda kosninganna að bæta lífskjörin í landinu þannig að fólk gæti farið að vinna sér inn auknar tekjur, minnka álögurnar á það og leiðrétta skuldirnar í gegnum skattkerfið svo að það gæti, ef það hefði misst íbúðirnar sínar, hafið söfnun á ný.

Við verðum að hafa þetta allt í huga, þetta vandamál er mjög fjölbreytt. Mikið af uppboðum er líka hjá fyrirtækjum, fasteignafélögum sem eru að missa fjölda íbúða sem eru jafnvel ókláraðar.

Hér kemur fram að mál af þessu tagi hafi verið samþykkt áður. Alþingi samþykkti áður í tvígang að fresta nauðungarsölu og því er spurningin af hverju ekki sé hægt að gera það einu sinni enn. Það ræddi velferðarnefnd þingsins undir lok síðasta kjörtímabils. Fyrir nefndina komu allir þeir aðilar sem höfðu eitthvað um þetta mál að segja og niðurstaðan varð sú að ekki gagnaðist öllum að fresta nauðungarsölu. Sumir voru að fresta vandanum. Vandinn var fyrirséður en vegna frestunar nauðungarsölu tafðist að leysa úr honum. Margir sem biðu og biðu lentu í ógöngum, áttu aldrei möguleika á að losna úr vandanum. Þegar vandinn var ljós hefðu þeir mögulega getað verið búnir að ganga í gegnum ferlið, þeir sem nauðungarsölu var frestað hjá, en voru enn í einhverju ferli sem þeir hefðu kannski losnað fyrr úr ef vandinn hefði verið birtur strax í upphafi.

Þetta mál hefur þannig verið margskoðað. Ég hef reynt að kynna mér þetta eins og ég get. Ég er alveg sannfærður um að það þarf að hjálpa öllum þeim sem eiga í þessum vanda en á misjafnan hátt. Hér erum við að ræða um einn hóp sem þarf að fresta nauðungarsölu hjá. Það er hópur sem greiðir raunverulega af lánunum sínum og mun geta haldið áfram að greiða af þeim með bættum kjörum og vegna leiðréttingar á forsendubresti. Þeim hópi á að sjálfsögðu að hjálpa og verja frá nauðungarsölu.

Þess vegna er góð nálgun í þessu frumvarpi að það snýr eingöngu að Íbúðalánasjóði. Mér skilst af þeim upplýsingum sem ég hef að einkabankarnir, hvað varðar nauðungarsölu, gangi ekki jafn hart að þeim sem eru að reyna að standa sig. Þeir sem greiða áfram af lánum sínum, þó að það sé ekki að fullu, og þeir sem aðgerðir í þágu heimilanna munu geta aðstoðað, þeir sem eru að reyna að borga — þeim þarf að hjálpa. Það er réttlætismál.

Svo þurfum við að skoða hvaða úrlausn er betri fyrir hina sem skuldaleiðrétting og annað mun ekki hjálpa. Þetta er því mjög flókinn vandi og það þarf að taka á þessu, ekki fresta vandanum. Það er engum til góðs að fresta vandanum. Ég held að það sé kjarninn í þessu máli. Þess vegna þurfum við að skoða það í framhaldi af þessu, að hjálpa þeim sem raunverulega eru að greiða af lánum sínum, hvort ekki þurfi að endurskoða lög og reglur um Íbúðalánasjóð þannig að hann hafi meira svigrúm til samninga og geti gert svipað og einkabankarnir, samið við þá sem borga inn á lánin í dag. Þess vegna fagna ég umræðunni og vona að við náum að finna lausnir á þessu sem fyrst.