143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

Landsvirkjun.

165. mál
[12:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum. Í frumvarpi þessu er lagt til að við lögin um Landsvirkjun bætist bráðabirgðaákvæði sem heimilar Landsvirkjun að sameinast Þeistareykjum ehf. Þess má geta að efnislega samhljóða heimild hefur þegar verið samþykkt í fjáraukalögum fyrir árið 2012. Talið hefur verið nauðsynlegt að sú heimild komi einnig fram í lögunum sjálfum um Landsvirkjun. Að öðru leyti er ekki verið að mæla fyrir neinum efnislegum breytingum á lögunum heldur eingöngu verið að heimila Landsvirkjun með formlegum hætti að sameinast dótturfélagi sínu.

Þeistareykir ehf. voru stofnaðir árið 1998 en megintilgangur félagsins var að hefja orkurannsóknir á Þeistareykjum í Þingeyjarsýslum. Frá því í apríl 2012 hefur Landsvirkjun ein farið með allt eignarhald í Þeistareykjum ehf. og telst félagið því vera 100% dótturfélag Landsvirkjunar. Þeistareykir ehf. hafa síðastliðin 15 ár eða allt frá stofnun félagsins staðið fyrir kostnaðarsömum og umfangsmiklum rannsóknum og undirbúningsframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar Þeistareykjavirkjunar.

Þar sem um er að ræða einkahlutafélag sem er að fullu í eigu Landsvirkjunar er talið hagkvæmast að færa allar eignir, réttindi, skyldur, skuldir og rekstur Þeistareykja ehf. yfir til Landsvirkjunar með samruna félaganna tveggja. Hér er einkum horft til þess að Landsvirkjun hefur með höndum umfangsmikla þekkingu á sama sviði og hefur þann trausta fjárhagslega bakgrunn sem Þeistareykir ehf. hafa ekki.

Í sameignarfélagssamningi Landsvirkjunar kemur meðal annars fram að ákvörðun um sameiningu eða samruna félagsins við önnur félög eða fyrirtæki sé óheimil nema að fengnu samþykki Alþingis.

Eins og í frumvarpi þessu er rakið er talið nauðsynlegt að afla ótvíræðs samþykkis frá Alþingi fyrir því að Landsvirkjun sé heimilt að sameinast Þeistareykjum ehf. Í frumvarpinu er lagt til að heimildin verði veitt með bráðabirgðaákvæði í lögum um Landsvirkjun sem taki til þessa einstaka tilviks og er því ekki um almenna heimild að ræða. Einnig er miðað við að farið verði að öllu leyti eftir meginreglum einkahlutafélagalaganna hvað samruna félaganna varðar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.