143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mikil og þörf umræða hefur farið fram að undanförnu um þá slæmu stöðu sem uppi er á Landspítalanum. Því miður á það sama við um stöðu heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni. Því vildi ég gera það að sérstöku umtalsefni hér í dag. Það er brýnt að við tökum á þeim vanda samhliða þeim vanda sem er á Landspítalanum. Ég teldi það geta hjálpað okkur að leysa þessi tvö vandamál að líta á þau sem tvö sameiginleg verkefni.

Niðurskurður heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hófst áður en það örlagaríka ár 2008 bar að garði. Fjárframlög til einstakra heilbrigðisstofnana úti á landsbyggðinni hafa dregist saman um allt að 26%. Þeim hefur ekki öllum tekist að bregðast við þessum samdrætti og sitja því uppi með halla. Það er eðlilegt að gerð sé hagræðingarkrafa til heilbrigðisstofnana eins og allra annarra stofnana eða aðila sem þiggja fjármagn úr ríkissjóði, en stofnanir eru misjafnar eins og þær eru margar og því er mögulegt að svigrúmið til hagræðingar hafi verið mismikið ef nokkurt í sumum tilfellum.

Samhliða þessu hefur dregið verulega úr þjónustu á landsbyggðinni. Skurðstofum hefur verið lokað, fæðingarstöðum hefur fækkað úr 27 í níu og svokölluðum landsbyggðarlæknum hefur fækkað, svo eitthvað sé nefnt. Það er dapurlegt að um leið og við sjáum þjónustuna og læknana flytjast til höfuðborgarsvæðisins sjáum við íbúana fylgja með.

Þá hefur þessu einnig fylgt mikil aukning á sjúkraflutningum og sjáum við nánast vikulegar fréttir af fæðingum í bifreiðum sem eru á leiðinni til næsta fæðingarstaðar, jafnvel yfir fjallvegi. Þá eru dæmi um það að heilu fjölskyldurnar þurfa að taka sig upp frá vinnu og skóla í einn til tvo mánuði vegna þess gleðilega viðburðar að það sé að fjölga í fjölskyldunni.

Þrátt fyrir þá þróun að íbúum fækki á sumum stöðum og samgöngur batni hefur þörfin fyrir öflugri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni ekki minnkað. Ferðamönnum fjölgar umtalsvert, þjóðin er að eldast, lífsstílssjúkdómar eru orðnir fleiri og áhættusamt atvinnulíf er víða í héraði. Auk þess eiga allir íbúar þessa lands jafnan rétt á grunnþjónustu í heimabyggð sinni. Þá eru til fjölmörg dæmi um að fólk sem hefur flutt brott úr heimahéraði sínu vilji flytja aftur heim þegar það þarf að fara á hjúkrunarheimili. Það eru mannréttindi að fá að eyða ævikvöldinu í heimahéraði sínu.

Saman þurfum við að taka á þessari þróun sem ég tel vera slæma. Við verðum að leita leiða til að bregðast við þessu þrátt fyrir slæma stöðu ríkissjóðs. Verkefnið hlýtur fyrst og fremst að snúast um hvort við getum aukið afkastagetu þess heilbrigðiskerfis sem við höfum í dag til að bæta þjónustuna. Við verðum einnig að kanna hvort við getum ekki nýtt betur þau sjúkrahús sem við eigum um land allt og samtakamátt samfélaganna til að hlúa að slíkum stofnunum. Það er dýrmætt fyrir okkur að hafa slíkan velvilja úti í samfélaginu. Með því að auka sérhæfinguna á landsbyggðinni gerum við vinnustaðina þar áhugaverðari fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem hefur sérhæft sig og nýtum betur byggingarnar sem við eigum nú þegar. Umhverfi landsbyggðarinnar getur hentað vel fyrir sérhæfingu eins og við höfum séð í endurhæfingunni, fæðingarstöðum og við úrlausn ýmissa kvilla eins og bakvandamála. Þess eru dæmi annars staðar á Norðurlöndum að sérhæfingin hefur verið flutt í minni bæi og fólk leitar þangað frá stærri bæjum.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig skuli bregðast við þessum aðstæðum, hvort hann telji unnt að auka afkastagetu íslenskrar heilbrigðisþjónustu og nýta sjúkrahúsin á landsbyggðinni betur og draga þannig úr því álagi sem myndast hefur á Landspítalanum. Einnig langar mig að spyrja hvort stjórnvöld hafi áform um gerð heilbrigðisáætlunar með leiðum að þessu markmiði þar sem öryggis- og þjónustustig er skilgreint.