143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér heilbrigðismál á landsbyggðinni, mál sem er mjög mikilvægt og er grundvallaratriði fyrir búsetu fólks á landsbyggðinni, jafnt í dreifðum byggðum sem í þéttbýli á landsbyggðinni. Á síðasta kjörtímabili þurfti að fara í erfiðar hagræðingar á heilbrigðisstofnunum sem og annars staðar í þjóðfélaginu en samt sem áður vorum við komin á þann stað að enginn niðurskurður var í fjárlögum þessa árs í heilbrigðiskerfinu. Aukafjárveiting var sett í vegna tækjakaupa á sjúkrahúsum landsmanna þar sem þörfin var orðin mjög brýn. Enn fremur var farið af stað með mikla uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsbyggðinni á síðasta kjörtímabili.

Þær hugmyndir sem nú eru uppi og koma fram í fjárlögum næsta árs um mikinn niðurskurð og sameiningar í heilbrigðiskerfinu hafa vakið sterk viðbrögð úti um allt land þar sem komið var að þolmörkum í hagræðingu og sparnaði liðinna ár og væntingar voru um að nú færi af stað uppbyggingarferli.

Hugmyndir um sameiningu níu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, þ.e. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi, verður að skoða með heimamönnum og af skynsemi og framkvæma í góðu samráði við heimamenn og að teknu tillit til þeirra hugmynda sem komið hafa upp, svo sem í Vesturbyggð þar sem áhugi er á að yfirtaka heilbrigðisstofnunina og samþætta félagsþjónustu eins og gert hefur verið með góðum árangri á Akureyri og í Höfn í Hornafirði.

Forsendur fyrir því að hægt sé að skapa aukna möguleika á samstarfi og samnýtingu á sviði heilbrigðismála í landinu og stöðugrar mönnunar víða um land, sem er vissulega vandamál víða, er að skapa öruggt starfsumhverfi. Horfa verður til þess að styrkja og efla komu sérfræðinga á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og draga úr þeim mikla kostnaði sem fylgir því að sækja sérfræðiþjónustu um langan veg og með tilheyrandi vinnutapi.

Sjúkraflutningar og sjúkraflug eru öryggisþættir sem aldrei má skerða og gott að hætt hefur verið við þau áform sem þar voru uppi um fækkun sjúkraflutningabíla í sumum heilbrigðisumdæmum. (Forseti hringir.) Ég kem að fleiri þáttum í seinni ræðu minni.