143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það virðist vera samhljómur hjá þeim sem hafa talað hingað til um að stuðla að öflugri heilbrigðisþjónustu. Það er einmitt það sem við erum að leggja upp með, að það þurfi að vera gott aðgengi, að það þurfi að vera öryggi, gæði og hægt að sækja þessa þjónustu óháð búsetu og efnahag. Auðvitað eigum við langt í land með marga þætti, sérstaklega kannski hvað varðar efnahaginn.

Það mátti skilja á málshefjanda að hingað til hefði ekki verið forgangsraðað innan þessarar þjónustu en ég vil upplýsa að þannig var það þó í niðurskurðinum, það er gríðarlega mikill munur á því hversu mikið var skorið niður á einstökum stofnunum. Þar var fylgt lögum sem sett voru 2007, heilbrigðislögunum, um það hvernig skyldi forgangsraðað.

Það sem við þurfum að horfa til núna er alhliða vandi. Það snýr ekki bara að landsbyggðunum versus höfuðborgarsvæði, það snýr líka að því hvernig við búum að heilbrigðisstéttum. Þar hefur verið gert átak í að rétta hlut þeirra stétta þar sem konur eru hvað fjölmennastar. Við þurfum að fara yfir tækjakostinn og það þarf að tryggja að hæstv. ráðherra kalli eftir upplýsingum frá öllum heilbrigðisstofnunum um nauðsynlegan tækjabúnað og endurnýjunarþörf á næstu árum. Síðan þarf að skoða aðstöðuna sem varðar húsnæði en þar hafa verið strokaðar út fjárfestingar til dæmis á Selfossi og í Stykkishólmi, svo ekki sé nefndur nýi Landspítalinn eða endurbættur Landspítalinn.

Þá þarf líka að skoða stöðuna í heilbrigðismálum út frá hjúkrunarrýmum vegna þess að það tengist mjög mikið og margar heilbrigðisstofnanir eru jafnframt hjúkrunarheimili. Það er að mörgu að huga sem skiptir mjög miklu máli að leysa í þeirri umræðu sem er fram undan.

Ég tek þó undir það sem hér hefur komið fram, aðalstyrkleikinn í heilbrigðiskerfinu á Íslandi er starfsfólkið, það hvernig við búum að starfsfólki, hvernig við náum til okkar okkar menntuðu og vel hæfu læknum. Það er eitt af stóru málunum sem þarf líka að leysa þegar við ræðum heilbrigðismál.