143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:57]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir þessar umræður. Björt framtíð lítur á heilbrigðisþjónustuna sem eina heild þar sem stefna, skipulag og stjórnun allra þátta, svo sem sjúkrahúsa og heilsugæslu, þarf að samstilla enn betur en nú er. Tryggja þarf örugga þjónustu sjúkrahúsa um leið og þjónusta heilsugæslu er efld þannig að einstaklingum sé gert kleift að sækja þjónustu sem hæfir hverju sinni og hagkvæm nýting þjónustu er tryggð.

Við í Bjartri framtíð styðjum fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu eins og verið hefur hér á landi undanfarin ár og áratugi. Nýta þarf ýmsar leiðir til að mæta þörfum landsmanna við heilbrigðisþjónustu. Þar er opinber þjónusta burðarás en leita þarf leiða til að nýta önnur rekstrarform til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem jafn aðgangur er grundvallaratriði, greiðsluþátttaka jöfn, eftirlit með gæðum þjónustunnar er tryggt og samningar endurskoðaðir í ljósi árangurs og hagkvæmni. Mörg dæmi eru hér á landi um góðan árangur af slíkum rekstri og vil ég nefna í því sambandi Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði sem hefur starfað með miklum myndarbrag frá júlí árið 1955. Þetta er ódýrasta endurhæfingar- og sjúkrastofnun Íslands og hafa Sjúkratryggingar Íslands mælt með þjónustunni sem hagkvæmum kosti. Stofnuninni hefur tekist að halda niður kostnaði og má nefna að árið 2012 var meðalkostnaður hins opinbera fyrir endurhæfingu á stofnuninni 13.277 kr. á legudag og hefur ekki hækkað frá árinu 2008. Samt tekur stofnunin á sig allan niðurskurð til endurhæfingarstofnunarinnar á fjárlögum 2014.

Heilsustofnunin í Hveragerði er einn af stærstu vinnustöðum Suðurlands og mikilvæg stoð heilbrigðisþjónustunnar hér á landi og er eina endurhæfingarstofnun landsins þar sem sjúklingum býðst að búa á staðnum og þjónar þannig landsbyggðinni sérstaklega, enda er stofnunin hlutfallslega betur sótt af fólki af landsbyggðinni en af höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Björt framtíð leggur áherslu á að allar stoðir heilbrigðiskerfisins séu styrkar, þar með talin bráðasjúkrahúsin í landinu, heilsugæslan, hjúkrunarheimilin og endurhæfing.