143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[14:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Varðandi þær þrjár meginspurningar sem hv. þingmaður spurði í upphafi síns máls og hvernig eigi að bregðast við, þá tel ég að það eigi að bregðast við þessum vanda með kerfisbreytingum. Það tekur tíma. Hvort möguleikar séu að sjá fyrir sér framleiðniaukningu í þessu kerfi eins og hv. þingmaður spurði um: Já. Á þrennan hátt. Á samráðsvettvangi um aukna hagsæld sem ótal aðilar komu að er gert ráð fyrir því að á næstu árum sé hægt að ná 12% framleiðniaukningu í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega á þremur sviðum. Í fyrsta lagi með fjármögnun eftir forskrift, í öðru lagi með því að taka upp þjónustustýringu og í þriðja lagi með styrkingu og innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár. Það eru þannig ýmis færi.

Ég tel hins vegar að sá vandi sem við er að glíma í heilbrigðiskerfinu endurspeglist ágætlega hér í þessari umræðu. Ég dreg ekkert í efa hug núverandi stjórnarandstæðinga um það að þeir hafi gengið frá fjárlögum fyrir árið 2013 hallalausum í rekstri heilbrigðisþjónustunnar, það sé enginn niðurskurður. Hvernig stendur þá á því, og það er spurningin sem við þurfum að spyrja okkur öll, að tíu heilbrigðisstofnanir fyrstu níu mánuði ársins reka sig með hátt í 1–1,5 milljarða í halla? Þá er eitthvað að í kerfinu. Það er ekki illur hugur, eða að þannig hafi verið gengið frá fjárlögum ársins 2013. Það er eitthvað allt annað sem ræður því og ég segi: Það eru kerfisvillur.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við þurfum að taka upp fjárveitingar til landsbyggðar á grundvelli þarfar fyrir heilbrigðisþjónustu, að teknu tilliti til fjölda íbúa, aldurssamsetningar og félagslegra þátta, en ekki að ákvarða fjárveitingar út á landsvæðin eftir fjölda heilbrigðisstofnana sem byggja þessar fjárveitingar á fjárveitingum fyrri ára. Við verðum að komast út úr þessu fari. Það gerum við ekki öðruvísi en að umbylta með einhverjum hætti því kerfi sem við höfum nýtt, með góðum árangri að vísu, síðastliðna áratugi. En það er þörf á breytingum sem taka tillit til þeirra aðstæðna sem við búum við í dag.