143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka forsætisráðherra fyrir þetta frumvarp, þ.e. þau markmið sem hann setur sér um að minnka reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni. Mig langar að koma með nokkrar spurningar.

Í fyrsta lagi: Núverandi tékklistar sem eru lagðir fyrir varðandi framlagningu á frumvörpum, EES-samþykktir, sveitarfélög, áhrif á kynjajafnrétti — eru menn að tala um að fara með það allt saman undir þetta ráð? Treysta menn þá ekki þeim listum sem eru notaðir eða þeirri umfjöllun sem fer fram þar?

Í öðru lagi: Hér er talað um að þetta komi nánast í staðinn fyrir að leita umsagnar á vegum Alþingis varðandi einstök mál. Hvernig lítur það út í ferlinu þegar það er orðinn sex manna hópur sem gefur eiginlega bindandi umsögn fyrir hönd atvinnulífsins um öll mál?

Í þriðja lagi: Er ekki hætta á að þarna verði öflug hagsmunagæsla þegar fjórir í ráðinu eru frá hagsmunaaðilum, valdir af þeim, og þarna verði bara bein hagsmunagæsla? (Forseti hringir.) — Ég er með tvær spurningar í viðbót sem ég kem með í seinna andsvari.