143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ágæt svör en málið er að lög og reglur frá Alþingi hafa áhrif á ríkissjóð, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Mér þætti ekki óeðlilegt að menn stefndu að því innan ekki langs tíma að þessi kostnaður og sparnaður, líka sparnaður, yrði metinn fyrir öll frumvörp, ekki bara ríkisstjórnarfrumvörp heldur líka frumvörp þingmanna, að þar verði metið hvað veldur miklum kostnaði fyrir heimilin eða hvað það sparar heimilunum mikinn kostnað. Það held ég að gæti orðið mjög merkilegt innlegg til að berjast gegn skriffinnsku og skrifræði sem getur valdið stöðnun og kyrrstöðu í þjóðfélaginu.