143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta mikla frumvarp sem hér er lagt fram því það er vissulega umfangsmikið. Ekki er vafi á að nauðsyn er að bæta gæði lagasetningar og reglna sem settar eru hér á þingi og reglna sem settar eru í Stjórnarráðinu.

Flokkssystir hæstv. forsætisráðherra, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, þreyttist ekki á því á síðasta kjörtímabili að kalla eftir að sett yrði upp lagaskrifstofa Alþingis sem má kannski dæma af því að þetta er komið fram núna, að ákveðið hafi verið að fara frekar þessa leið en gera það. Ég fagna því út af fyrir sig að lögð er áhersla á fleira en lagabókstafinn einan saman, því það er margt annað sem þarf að skoða.

Ég fagna líka markmiðum frumvarpsins. Ég ætla aðeins að gera smáathugasemd — að draga úr reglubyrði, það þarf vissulega, það þarf að draga úr reglubyrði. Ég vil líka segja að orðið byrði segir að reglur séu líka byrði. Það sem ég er að reyna að koma hérna að, virðulegur forseti, er að reglur geta verið nauðsynlegar án þess að þær séu byrði. Það kristallast náttúrlega sérstaklega í því sem er hér oft til umræðu og kom fram í andsvörum hv. þm. Helga Hjörvars og síðan í svari hæstv. forsætisráðherra. Til dæmis hvað varðar samkeppnina, þar er markmið að auka samkeppni, en samkeppni verður ekki aukin nema með því að hafa mjög strangt eftirlit með samkeppninni og að mjög strangar reglur gildi þar.

Þetta með byrðina, mér finnst bara vont að við höfum ekki eitthvað annað — ég vil þá skilja það þannig að það sem á að gera hérna er að markmiðið sé að draga úr þeim reglum sem ekki eru nauðsynlegar, óþörfum reglum sem varða atvinnulífið. Það er náttúrlega líka alveg sjálfsagt, virðulegi forseti, og bara af því góða. En auðvitað getur verið að við höfum mismunandi skoðanir á því hvaða reglur eru þarfar og hvaða reglur eru óþarfar.

Ég vona — þó að það sé mjög mikið í tísku í þingsal þessa dagana að tala um að menn séu málefnalegir eða ómálefnalegir — að það sé ekki ómálefnalegt að svolitla umræðu þurfi kannski um það hvaða reglur þurfi að vera og hvaða reglur þurfi ekki að vera. Ef við tökum eitt dæmi sem getið er um í frumvarpinu að þurfi að athuga, þ.e. kvaðir um mengunarvarnir sem settar eru á fyrirtæki, þá getur það verið byrði fyrir eitthvert fyrirtæki, kostnaður vegna slíks og eitthvað svoleiðis, en það er augljóslega gott fyrir umhverfið, fyrir fólkið í landinu o.s.frv. Þetta þarf því allt að vega saman.

Ég tel, með þeim fyrirvörum sem ég hef haft, að markmiðið með frumvarpinu sé mjög gott. Ég verð hins vegar að nefna eitt, sem verður væntanlega rætt í nefndinni sem frumvarpið fer til, hvort akkúrat það umhverfi sem búið er til, þ.e. þetta regluráð, sé best til þess fallið.

Það eru ýmis atriði sem ég velti líka fyrir mér. Bara til að nefna eitt sem ég velti fyrir mér þegar ég les þessar miklu tillögur í fyrsta sinn er til dæmis það að forsætisráðherra á að setja reglugerð. Gott og blessað með það, en síðan geti forsætisráðherra undanþegið að eitthvað fari fyrir regluráðið þegar brýna nauðsyn ber til. Ég velti fyrir mér, ef við ætlum að vera með slíka umgjörð um lagasetningu, hvort það sé þá rétt að það geti verið á hendi eins manns að ákveða að eitthvað — auðvitað er það alltaf í samráði, en á endanum væri það forsætisráðherra sem ákveddi það: Nei, nákvæmlega þetta þarf ekki að fara fyrir regluráðið.

Eins og fram hefur komið á þetta til að byrja með einungis að gilda um atvinnuvegina og lög og reglur sem gilda um þá, en mér þætti það nú mjög sennilegt að ef þessi aðferðafræði tekst muni það fljótt leiða til þess að önnur lagasetning verði skoðuð á sama máta.

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, kostnaðarmatinu sem liggur með frá fjárlagaskrifstofunni þar sem segir að ekki verði mikill kostnaður við þetta. Það verði kostnaður við einhverja starfsmenn og þjónustu frá skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu, hugsanlega sérfræðiþjónustu og svo við formann nefndarinnar. En aðrir nefndarmenn eigi ekki að vera launaðir.

Hins vegar kemur fram að tilnefna eigi aðra nefndarmenn — sem eru tilnefndir af hagsmunaaðilunum, þá á ég við Samtök atvinnulífsins, ASÍ, Viðskiptaráð og Samband ísl. sveitarfélaga — en þegar menn og konur eru komin í ráðið eru þau þar á eigin vegum og eru sjálfstæð, ekki á vegum þeirra samtaka. Þá finnst mér nú óvarlegt að ætla fólki það að sitja þarna sem fulltrúar sinna samtaka en sé ekki á launum frá samtökunum — nema að það séu þingmenn sem verða þá aðstoðarmenn ráðherra, virðulegi forseti. Mér finnst það óvarlegt. Mér finnst óvarlegt að gera ráð fyrir því að fólk leggi fram vinnu af þeirri tegund sem hér er lagt upp með án þess að fá greiðslu fyrir það. Þess vegna held ég að kostnaðarmatið sé of lágt.

Mig langar aðeins að nefna gildistímann, sem er fjögur ár. Frá mínum sjónarhóli er það góð nýbreytni við lagasetningu að hafa sólarlagsákvæði. En auðvitað er svo líka ljóst að ef þetta tekst vel er hægt að endurnýja lögin, ef svo má segja, áður en þau falla úr gildi. Ég vil fagna þessari nýbreytni. Mér finnst hún bara skemmtileg.

Ég er svo heppin að sitja í þeirri nefnd sem á að fjalla um frumvarpið því að mér finnst þetta mjög merkilegt frumvarp. Ég á hins vegar von á því að ég hafi um það ýmsar athugasemdir og við munum skoða þær nánar þar. Ég vona að það verði ekki, eins og ég sagði áðan, flokkað undir það að vera ómálefnaleg þó að ég kvitti kannski ekki undir frumvarpið alveg eins og það kemur fyrir í dag.