143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. forsætisráðherra til laga um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni. Ég kem hér upp í 1. umr. þó að ég sé ekki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en það er af því mér finnst frumvarpið vera ákveðin stefnubreyting stjórnvalda. Ég verð að segja að svona fljótt á litið beri það kannski keim af frjálshyggju í miðstýringarbúningi.

Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem sagðist vera sammála því markmiði að efla framleiðni og hagvöxt og ég held að það sé mjög mikilvægt — við erum norræn þjóð — þegar við hugsum um framleiðni og hagvöxt að við horfum til Norðurlandanna sem standa sig hvað best í samkeppnismálum og framleiðni á alþjóðamælikvarða. Það er vegna þess að Norðurlöndin eru með mjög öflug velferðarkerfi, öflug menntakerfi sem fólk hefur aðgengi að óháð efnahag og hafa öðrum ríkjum framar tryggt almannahagsmuni, standa vörð um almannahagsmuni fyrst og fremst í samfélagsgerð sinni og skipan mála. Í því felast skýrar leikreglur sem allir þurfa að fara eftir, jafnt atvinnulíf sem aðrir. Þegar saman fara velferð, menntun, heilsa, almannahagsmunir og skýrar reglur, hefur það skapað aukna framleiðni og hagvöxt, enda horfa flest ríki öfundaraugum á þá almennu velsæld sem ríkir á Norðurlöndunum þó að síðan geti skoðanir verið skiptar um hvers konar samfélagsgerð við viljum og slíkt. Ég tel mikilvægt að þetta komi fram.

Það sem truflar mig verulega við frumvarpið er að verið er að auka völd atvinnulífsins á Íslandi yfir löggjöf. Nú er það svo að Norðurlöndin, sem ég var að vitna í, eru líka sterk af því að þar er mikið samráð við aðila vinnumarkaðarins, jafnt verkalýðshreyfingu sem atvinnulíf. Það er hefð sem við búum líka að hér á landi þó að það sé til mun skemmri tíma sem við höfum lagt áherslu á samráð og að það megi efla til muna. Ég er þeirrar skoðunar á þessu stigi máls að skynsamlegra sé að gera það án lögbundins hlutverks þessara aðila frekar en í einhvers konar formföstu samráðsferli sem sé ekki bundið í lög.

Síðan er kannski ágætt að minna á það, frú forseti, að hér í þessum sal erum við einmitt kjörin í lýðræðislegri kosningu í fulltrúalýðræði til þess einmitt að sinna markmiðum þessa frumvarps meðal annars.

Í kjölfar hrunsins var ýmissi skipan mála í Stjórnarráðinu breytt. Nú er í forsætisráðuneytinu skrifstofa löggjafarmála og skrifstofa stjórnsýslu og samfélagsþróunar. Ég hef ekki lesið neina úttekt á hvernig til hefur tekist og er ekki að tala af djúpri þekkingu á því hvernig þetta gangi í forsætisráðuneytinu, en ég held að Alþingi eigi ríka hagsmuni af því, sem fulltrúi almannahagsmuna, að þessar einingar verði efldar innan forsætisráðuneytisins til þess meðal annars að ná þeim markmiðum sem þetta frumvarp vill ná og að við tryggjum að íslenska Stjórnarráðið, stjórnsýsla Íslands, búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að smíða góð lagafrumvörp. Auðvitað smíðum við mörg góð lagafrumvörp, en ef talin er þörf á að bæta lagagerðina held ég að við ættum að byggja upp frekari þekkingu, reynslu og færni innan Stjórnarráðsins og tryggja síðan áframhaldandi samráð við þá aðila sem hagsmuni eiga af þeirri löggjöf sem verið er að smíða hverju sinni.

Einnig kemur fram það sem mér sem fulltrúa almennings hér inni finnst einkennilegt, það sem stendur í 3. gr., lokamálsgreininni:

„Ráðherra er heimilt í reglugerð eða með erindisbréfi að fela ráðinu önnur verkefni sem tengjast vönduðum undirbúningi og endurskoðun löggjafar, enda þjóni þau markmiðum laga þessara, samrýmist sjálfstæði ráðsins og komi ekki niður á lögbundnum verkefnum þess.“

Svo er farið yfir það í greinargerð að það kunni að vera úttekt á ákveðnum málefnasviðum og einhverjum EES-málum og slíkt, en þarna finnst mér lögbundið ráð vera komið með ansi víðtækar og óskilgreindar heimildir.

Á meðan ég man, áður en ég fer yfir í þá aðra tvo þætti sem ég vil gera athugasemdir við, finnst mér furðulegt að kalla þetta óháð regluráð því að þetta er ekki óháð regluráð. Í þessu ráði verða fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambands Íslands, stór hluti verkalýðshreyfingarinnar á almennum markaði — ég er ekkert að gera lítið úr því, en síðan erum við þarna með Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð. Þannig að „óháð regluráð“ er svolítið furðulegt.

Í lokamálsgrein 4. gr. er farið yfir það að ef, vegna tímaskorts eða vanrækslu, í ljós kemur að lög eða stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið sett án þess að regluráði hafi gefist færi á að veita umsögn sé ráðherra heimilt að beina því til viðkomandi stjórnvalds að lög eða stjórnvaldsfyrirmæli skuli endurmetin innan tveggja ára. En það er náttúrlega ekki ráðherra sem ákveður hvort endurmeta skuli lög. Það er Alþingi Íslands sem tekur ákvarðanir um það hvenær eigi að endurskoða lög. Þó ráðherra geti átt frumkvæði að því og borið það undir þingið, en það er auðvitað Alþingi sem hefur löggjafarvaldið og fyrirmæli um slíkt.

Síðan, af því við vorum að tala um óháð regluráð, segir hér í h-lið 5. gr., með leyfi forseta:

„[E]f tillaga felur í sér minni byrðar fyrir atvinnulífið eða ef hún heimilar starfsemi sem áður hefur verið bönnuð eða hömlur settar við; hvort almannahagsmuna, og eftir atvikum annarra lögmætra hagsmuna, er nægilega gætt,“

Mér finnst furðulegt að það sé bundið í lög að það séu einmitt þessir aðilar sem eigi að meta það. Að sjálfsögðu getur Alþingi svo verið ósammála því mati, en það eru ýmsir aðrir aðilar en Viðskiptaráð sem mér koma í hug þegar meta á slíka hagsmuni. Nú er ég ekki að gera lítið úr Viðskiptaráði. Viðskiptaráð er ágætisfyrirbæri og ég nýti mér oft gögn þaðan, en í mínum huga er ekki hægt að fela Viðskiptaráði með lögbundnum hætti að meta almannahagsmuni varðandi atvinnustarfsemi hér í landi, hvað þá heldur Samtökum atvinnulífsins. Um leið og mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að samráð sé haft við þessa aðila þegar verið er að setja löggjöf sem þá varðar.

Að þessu sinni, frú forseti, hef ég ekki meira um málið að segja. Ef það kemst hér til 2. umr. mun ég blanda mér í þá umræðu.