143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

skuldaleiðréttingar.

[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir fyrirspurnina. Almennt um þetta mál finnst mér mikilvægt að við beinum frekar sjónum okkar að því sem við ætlum að gera og því sem er hægt að gera heldur en að eiga langar samræður um það sem við ætlum ekki að gera. Ég get svo sem mætt væntingum hv. þingmanns um viðbrögð með því að segja að ég vil forðast allt sem eykur skuldir ríkisins og auðvitað sérstaklega ráðstafanir sem draga úr lánshæfismati á íslenska ríkinu. Það eru aðgerðir sem við eigum að forðast í lengstu lög og við eigum að vinna okkur í hina áttina, við eigum að vinna okkur í átt til þess að bæta lánshæfi ríkisins.

Um aðgerðir fyrir skuldsett heimili að öðru leyti þá vitum við báðir, ég og hv. þingmaður, að nú líður að því að við fáum til umfjöllunar tillögur úr þeim hópum sem hafa verið að vinna að þeim málum undanfarna mánuði. Mér finnst rétt að bíða eftir því að þær líti dagsins ljós áður en við tökum efnislegu umræðuna. Þetta get ég sagt um skuldamálin og skuldastöðu ríkisins heilt yfir. Ég mundi reyndar vilja sjá meira innlegg frá öðrum þingflokkum en þeim sem standa að ríkisstjórninni hvað það snertir að tjá sig eitthvað um þann vanda sem ég tel að sé enn til staðar, sem er mjög há skuldsetning íslenskra heimila á móti ráðstöfunartekjum í sögulegu samhengi, líka í alþjóðlegum samanburði. Þess vegna er mikilvægt að þingflokkarnir almennt og þingmenn tjái sig um þann vanda og hvort þeir telji hann yfir höfuð vera til staðar og hvaða leiðir sé best að fara til að vinna á honum.