143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

skuldaleiðréttingar.

[15:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er gott að við erum sammála um að hér er á ferðinni viðfangsefni sem allir flokkar telja mikilvægt að tekið verði á þó að menn geti eitthvað greint á um leiðir til þess.

Ég vil segja almennt um þær leiðir sem eru í smíðum að ég hef ekki séð þær enn þá, þær hafa ekki enn litið dagsins ljós og við þurfum að gefa þeim nefndum sem hafa verið að vinna að málinu tíma til að skila af sér.

Spurt er að því hvort ég styðji það að auka nettóskuldir ríkissjóðs. Þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt fyrir nokkrum vikum lagði ég sérstaklega á mig að draga fram hver skuldsetning ríkissjóðs er, um 85% af vergri landsframleiðslu. Ég sýndi fram á það að með því að loka fjárlagagatinu og hætta skuldasöfnuninni gætum við á næsta ári jafnvel unnið okkur niður fyrir 80% hlutfallið í þessu samhengi sem ætti að vera til vitnis um að ég legg áherslu á að við vinnum að því á næsta ári og árunum þar á eftir að lækka skuldir ríkissjóðs.