143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

fjárveiting vegna vetrarólympíuleika fatlaðra.

[15:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og um leið hvatninguna til að styðja vel við íþróttastarf fatlaðs fólks. Ég get tekið undir þá hvatningu. Ég held að mjög brýnt sé að styðja við íþróttastarf fatlaðra einstaklinga og ófatlaðra og mikilvægt að tryggja að ekki sé verið að mismuna hvað varðar stuðning þegar kemur að þátttöku í stórum alþjóðlegum mótum, og sérstaklega þar sem fatlaðir einstaklingar hafa staðið sig mjög vel fyrir íslensku þjóðina þegar þeir hafa tekið þátt í þessum stóru mótum.

Það sem ég get líka svo sem bent á er að margt snýr að málefnum fatlaðs fólks sem við þyrftum meiri fjármuni í, mörg verðug verkefni. Ég vil hvetja þingheim allan til að taka undir með mér og samfélagi fatlaðra að tryggja það að við getum haldið áfram að vinna að því að bæta stöðu þeirra og aðstöðu.