143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

fjármunir til þjónustu við fatlað fólk.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að margar af þeim brotalömum sem hv. þingmaður tínir hér til séu ekki í beinum tengslum við tilflutning málaflokksins yfir á sveitarstjórnarstigið heldur kannski þvert á móti. Með því að þjónustan hefur verið færð nær notendunum með yfirtöku sveitarfélaganna á málefnum fatlaðra getum við einmitt haft uppi meiri væntingar, betri vonir um að úr ýmsum af þessum verkefnum leysist.

Ég tel að við séum að ræða hér um málaflokk þar sem við eigum enn eftir að uppfylla okkar ýtrustu væntingar og kröfur. Það er auðvitað þannig á fjölmörgum öðrum sviðum einnig. Ég gæti nefnt heilbrigðisþjónustuna í víðara samhengi en því sem snýr að fötluðum. Í ljós hefur komið að eftir tilflutning á málaflokknum til sveitarfélaganna þykir full ástæða til að ræða frekar hvort nauðsynlegir fjármunir hafi verið látnir fylgja. Af því tilefni hefur verið gert samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að fresta endanlegu uppgjöri um rúmt ár og að sveitarfélögin fái aukið tilkall í tekjuskattsstofn ríkisins og fái þannig svigrúm til að bæta við í útsvarið vegna þessa málaflokks sérstaklega.

Ég get bara svarað á almennum nótum varðandi hin ýmsu úrræði sem hv. þingmaður kallar eftir. Hv. þingmaður bendir á húsnæðismálin sem sérstakan málaflokk sem sé ekki í góðri stöðu í dag og það er ekkert annað að gera en að taka undir með þingmanninum um að enn er úrbóta þörf á ýmsum sviðum. Ég þakka fyrir að það skuli vera vakin athygli á þessu, en ég vonast til þess að á (Forseti hringir.) sveitarstjórnarstiginu muni takast vel að greiða úr þessum verkefnum.