143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

fjármunir til þjónustu við fatlað fólk.

[15:22]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svörin. Ég var ekki að segja að vandinn í málefnum fatlaðs fólks fælist í yfirfærslu sem slíkri heldur í þeirri staðreynd að staða málaflokksins var slæm við yfirflutning og það hefur kannski komið niður á þessari yfirfærslu.

Mín von er auðvitað sú að yfirfærslan muni skila sér í bættri réttarstöðu fatlaðs fólks og það hafi þá í auknum mæli aðgang að samfélaginu, sé ekki útilokað, og að í rauninni fögnum við fjölbreytileikanum með þeim hætti að sjá það sem ávinning, bæði sem þjóðfélagslegan og efnahagslegan, að fatlað fólk sé virt og taki þátt í samfélaginu. Mig langar að fá aðeins skýrari svör við því hvernig og í hvað fjármagninu verður varið, einmitt til að auka virkni og þátttöku. Það var það sem mig langaði að vita.