143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

fjármunir til þjónustu við fatlað fólk.

[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í fyrirspurn sinni í fyrri ræðu að það skorti á að menn gerðu grein fyrir öllum þeim tilkostnaði sem fylgdi því að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar. Það má kannski til sanns vegar færa. Ég hygg hins vegar að með því að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði séum við að setja þrýsting á okkur sjálf, ný viðmið. Því fylgir eins konar viljayfirlýsing um að ná fram öllum þeim réttindum sem þar er lýst yfir og með lögbindingu eru það síðan orðin lögvarin réttindi.

Dæmi um framför á þessu sviði er hin notendastýrða aðstoð sem svo mikið hefur verið unnið að á undanförnum árum og enn eru bundnar vonir við, en það hefur komið í ljós að slíkri aðstoð þarf að fylgja meira fjármagn en menn gerðu kannski upphaflega ráð fyrir. Það er þá einfaldlega úrlausnarefni fyrir okkur og það fylgir umræðunni um fjárlög fyrir hvert ár og það fylgir líka samtalinu við sveitarstjórnarstigið hvort fullnægjandi fjármagn hafi fylgt málaflokknum eða ekki.