143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

hagvaxtarhorfur.

[15:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er með tvær spurningar til hæstv. fjármálaráðherra. Sú fyrri lýtur að dauflegum hagvaxtarhorfum nú eftir að ný þjóðhagsspá Hagstofunnar er komin út. Þó að í þeirri spá sé útlitið fyrir árið í ár reyndar ívið skárra en í júníspánni er það takmörkuð huggun því að þar er fyrst og fremst um hliðrun hagvaxtar milli áranna 2012 og 2013 að ræða. Það eru hins vegar hinar dapurlegu horfur varðandi árin þar á eftir sem ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra eftir, um 2,5% hagvöxtur til næstu ára litið og þá með vonarpeningnum Helguvík eins og stundum áður.

Þegar við áttum orðastað um þessa hluti á síðasta kjörtímabili fór hæstv. núverandi fjármálaráðherra, þáverandi forustumaður í stjórnarandstöðu, hv. þm. Bjarni Benediktsson, iðulega í ræðustólinn og taldi algerlega óásættanlegt að hagvöxtur væri ekki meiri en tæp 3% á árinu 2011. Því hlýtur maður að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað nú, hvað segir hæstv. ráðherra um þessar horfur?

Seinni spurningin er einföld. Hún er einfaldlega þessi: Hverju sætir að fjáraukalagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár er ekki komið fram? Ég hafði hreinlega ekki áttað mig á því fyrr en ég fór að skoða það að svo standa mál. Fjáraukalagafrumvarp hefur yfirleitt fylgt fjárlagafrumvarpi og komið fram viku til tíu dögum á eftir. Þannig var það á síðasta ári að fjáraukalagafrumvarp kom fram eða því var útbýtt 20. september, sirka tíu dögum á eftir fjárlagafrumvarpi, árið 2011 kom það fram 11. október, sömuleiðis um tíu dögum á eftir fjárlagafrumvarpi, árið 2010 15. október, 2009 8. október, 2007 9. október o.s.frv. Ég sé engin dæmi um það í þingsögunni undanfarin ár að fjáraukalagafrumvarp hafi ekki verið komið fram tíu til fimmtán dögum eftir að fjárlagafrumvarpi er dreift og síðasta dagsetning sem ég finn er 15. október.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Boðar það einhver tíðindi að fjáraukalagafrumvarpið er ekki komið fram?