143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

hagvaxtarhorfur.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég lét getið í fyrri ræðu minni er það einungis dagaspursmál hvenær fjárlagafrumvarpið kemur inn í þingið.

Varðandi hagvöxtinn, já, þá erum við sammála um það, ég og hv. þingmaður, að við viljum að grundvöllur hagvaxtarins sé sjálfbærni í efnahagskerfinu, að hagvöxturinn sé ekki borinn uppi hverju sinni af einstökum stærri fjárfestingum. En einmitt til að fjárfesting í atvinnulífinu, hjá einkageiranum og hjá hinu opinbera, sé sjálfbær þurfum við annars vegar að stunda opinberar fjárfestingar á sjálfbæran hátt, þ.e. ekki með því að skrifa það allt á framtíðarkynslóðir með hallarekstri, en það var því miður niðurstaðan á árinu 2013, að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar var að mestu leyti byggð á því sem síðan reyndist vera hallarekstur. Hjá einkaaðilum fáum við ekki drifkraft í fjárfestinguna, við fáum ekki ný fyrirtæki til að leggja af stað í auknar fjárfestingar eða ný fyrirtæki til að koma inn í landið (Forseti hringir.) nema efnahagsumhverfið í heild sinni sé aðlaðandi. Og það hefur verið einfaldlega of mikil pólitísk óvissa og atvinnufjandsamlegt umhverfi undanfarin ár.