143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

tengivegir og einbreiðar brýr.

154. mál
[15:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þær fyrirspurnir sem hér hafa verið bornar upp af hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur og skal með ánægju fara yfir þær spurningar sem tengdust umræðuefninu. Ég vil hins vegar fyrst segja að ég tek undir það með hv. þingmanni að viðhaldi hefur verið nokkuð ábótavant á umliðnum árum og kemur þar auðvitað til að reynt hefur verið eftir fremsta megni að hagræða og spara, þó með þeim hætti að ákveðnar framkvæmdir, sem lengi hefur verið beðið eftir, þyrftu ekki að bíða lengur. Það hefur auðvitað ráðist af þeirri forgangsröðun.

En fyrsta spurningin, sem hv. þingmaður óskaði svara við, var svohljóðandi: Eru áætlanir uppi um að leggja meira fé til viðhalds á tengivegum, og þá sérstaklega með tilliti til skólaaksturs og þar sem mikill fjöldi ferðamanna fer um?

Því er til að svara að fjármagn til viðhalds vega er skilgreint nánar í greinargerð með samgönguáætlun 2013–2016 sem lögð var fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Ef veita á meira fé til tiltekinna vegflokka verður það á kostnað annarra verkefna eins og þingheimur þekkir og mun fara yfir í umræðunum um þessi mál.

Ég hef hins vegar sem innanríkisráðherra bæði í ræðu og riti ítrekað lagt áherslu á viðhald vega víða um land, burt séð frá einstaka nýframkvæmdum í samgönguáætlun. Hvað viðhald vega varðar verður það, eins og ég sagði áðan, að viðurkennast að þar hefur nokkuð dregið úr á undanförnum árum vegna fjárskorts en ég tel brýnt og nauðsynlegt að leita leiða til að bæta þar úr. Eins og við vitum er fjármagn til vegaframkvæmda af skornum skammti en við höfum hins vegar á undanförnum vikum verið að skoða leiðir til að hraða mögulega ákveðnum nýframkvæmdum og munum við kynna það síðar í vetur. Með því móti væri hugsanlega hægt að auka við fjármagn til viðhalds á vegum.

Í öðru lagi var spurt hvort ráðherra hefði skoðað möguleikana á því að flýta framkvæmdum við einbreiðar brýr á Suðurlandi en líkt og fram kom hjá hv. þingmanni er í samgönguáætlun miðað við að þær framkvæmdir verði ekki fyrr en á árunum 2019–2022.

Um þetta er það að segja að samgönguráð vinnur nú að gerð fjögurra ára samgönguáætlunar og mun skila tillögum til innanríkisráðherra fyrir áramót. Áætlunin verður í framhaldinu lögð fyrir Alþingi og það er því þingsins að taka afstöðu til hennar. Næsta langtímaáætlun í vegagerð verður síðan fyrir tímabilið 2015–2026, og það mun ráðast af því fjármagni sem veitt verður til vegamála í áætluninni hvort unnt verður að flýta framkvæmdum við einbreiðar brýr á Suðurlandi.

Í þriðja lagi var spurt hvort ráðherra hefði skoðað hvort mögulegt sé að spara fé með því að setja ræsi undir vegi og breikka þær steyptu brýr sem eru góðar fyrir, fremur en byggja nýjar.

Hvað þetta varðar er því til að svara að samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er það ávallt skoðað hverju sinni, og er hluti hönnunar mannvirkisins, hvort unnt sé og hagkvæmt að setja svokölluð stálræsi í stað þess að gera brýr yfir vatnsfallið. Einnig er skoðað hvort hagkvæmt sé að breikka brýr sem fyrir eru. Þessar framkvæmdir eru eðlilega unnar í nánu samráði við Vegagerð og samgönguráð.

Ég mun hins vegar, í framhaldi af þessari fyrirspurn, koma þeim upplýsingum og ábendingum sem hv. þingmaður var með til samgönguráðs enda eðlilegt að gera það þar sem samgönguráð vinnur nú að forgangsröðun verkefna til næstu ára og þeim framkvæmdum sem hægt verður að komast í. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, virðulegur forseti, um þessi mál er tengjast umræðunni um samgöngumál, ég tek undir það með hv. þingmanni, og held reyndar að við deilum öll þeirri skoðun, að það er mjög mikilvægt að tryggja vöxt, ef við getum orðað það þannig, í innviðaframkvæmdum. Eitt mikilvægasta verkefnið þar, og það er ekki bara vegna þess að það þurfi að gera slíkt vegna þess að slík vilyrði séu til staðar í samgönguáætlun — það er nauðsynlegt fyrir öryggi almennings, sérstaklega úti á landi, úti á landsbyggðinni, ekki bara fyrir ferðamennina okkar heldur fyrir okkur sjálf, að tryggja að vegirnir okkar þoli það álag sem þeir hafa mátt þola að undanförnu. Til þess að hægt sé að tryggja að þeir séu öruggir áfram verðum við að huga betur að viðhaldi.

Ég fer þess hér með á leit við þingheim að hann skoði þá hluti þegar verið er að vinna með samgönguáætlun.