143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

tengivegir og einbreiðar brýr.

154. mál
[15:48]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og þá umræðu sem hér fer fram um ástand tengivega, einbreiðar brýr og ástand á vegakerfi. Ég tek undir áhyggjur fyrirspyrjanda af ástandi tengivega og tek alveg undir orð hennar þar sem þetta er í raun kjarninn í því við hvaða aðstæður fólk í dreifðum byggðum býr, sveitafólk sem þarf að sækja um langan malarveg ýmsa þjónustu og aðdrætti fyrir heimili sín og bú. Þess vegna vil ég hvetja til þess að við áframhaldandi vinnu verði horft til þess hvar hæsta hlutfall tengivega án slitlags sé þegar forgangsraðað er fyrir endurbótum á þeim vegum og hvetja jafnframt til þess að við skoðum með jákvæðum hætti að endurskoða þær kröfur sem við gerum til endurgerðar á tengivegum þannig að við þyrftum ekki að byggja þá upp í hæsta öryggisflokki heldur nýtum þá vegi með lágmarksendurbótum til að geta hraðað því sem mest að koma varanlegu slitlagi á tengivegi. Þannig búum við fyrst til tíma og rými fyrir það (Forseti hringir.) að endurbæta vegakerfið.