143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[15:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um náttúruvernd. Frumvarpið felur í sér að lög um náttúruvernd nr. 60/2013, sem samþykkt voru í mars sl. og eiga að taka gildi 1. apríl nk., falli brott. Við brottfall laganna halda eldri lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, gildi sínu.

Þegar frumvarp til laga um náttúruvernd, sem síðar varð að lögum nr. 60/2013, var afgreitt á 141. löggjafarþingi mætti það mikilli andstöðu frá ólíkum hópum samfélagsins. Í því sambandi ber að nefna að hv. umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis bárust margar athugasemdir vegna frumvarpsins, meðal annars frá mikilvægum hagsmunaaðilum eins og sveitarfélögum. Stór hluti þeirra athugasemda eiga það sameiginlegt að gagnrýna skort á samráði auk þess sem mikið hefur verið fjallað um að yfirbragð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 60/2013 hafi einkennst of mikið af boðum og bönnum.

Athugasemdir, sem gerðar voru í umsögnum um frumvarpið, lutu meðal annars að því að verkaskipting og hlutverk væru ekki nógu skýr milli ríkisstofnana innbyrðis en einnig milli ríkisstofnana annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Orðskýringar væru óljósar og gæfu tilefni til mismunandi túlkunar og skipulagsvald sveitarfélaga væri skert. Þessi atriði skipta miklu. Ég tel mun líklegra til árangurs að ríki og sveitarfélög geti átt góða samvinnu um náttúruverndarmál, svo og að valdmörk og verkaskipting aðila séu skýr.

Einnig má nefna 37. gr. frumvarpsins sem fjallar um rétt ráðherra til að kveða á um tímabundið bann við framkvæmdum eða nýtingu sem skaðað getur verndargildi náttúruminja og getur gilt í allt að 5 ár. Samband íslenskra sveitarfélaga gerði einnig verulegar athugasemdir við X. kafla frumvarpsins, sem fjallar um vernd jarðminja, vistkerfa, vistgerða og tegunda. Þó nokkrar athugasemdir voru gerðar við XI. kafla sem fjallar um framandi tegundir og meðal annars var sérstaklega bent á að stjórnsýsla vegna innflutnings og dreifingar framandi lífvera yrði sérstaklega flókin og gæti jafnvel þurft að sækja um leyfi til innflutnings á grundvelli margra mismunandi laga.

Miklar athugasemdir voru gerðar við IV. kafla frumvarpsins sem fjallar um almannarétt, útivist og umgengni, og bent er á að ákvæði kaflans gæti haft í för með sér skerðingu á umráðarétti landeigenda. V. kafli frumvarpsins, sem fjallar um akstur utan vega, var harðlega gagnrýndur og ber til að mynda að nefna að umhverfis- og samgöngunefnd gerði breytingar á þeim kafla frumvarpsins þegar það var í meðförum Alþingis. Þingið mat það svo að kaflinn væri ekki nægilega vel útfærður og bætti því bráðabirgðaákvæði við frumvarpið þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli taka V. kafla til endurskoðunar og leggja fram frumvarp um nýjan kafla á haustþingi 2017. Að auki lá fyrir að gildistaka laganna hefði í för með sér mikinn kostnað, bæði fyrir ríki og sveitarfélög, og vísa ég í því sambandi til kostnaðarmats fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Þau atriði sem ég hef hér farið yfir fela alls ekki í sér tæmandi upptalningu á þeim athugasemdum sem gerðar voru við frumvarp það er varð að lögum um náttúruvernd nr. 60/2013. Vegna þeirrar gagnrýni sem fram kom vegna frumvarpsins var tekin ákvörðun í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um að skoða leiðir til að jafna þann ágreining sem til staðar er og reyna að skapa betri sátt um lagaramma náttúruverndar.

Að mati ráðuneytisins voru tvær leiðir í boði. Annars vegar að fresta gildistöku laganna um til dæmis eitt ár og hins vegar að fella lögin úr gildi. Ef fyrri leiðin yrði farin, þ.e. að fresta gildistöku laganna og leggja í kjölfarið fram frumvarp til nauðsynlegra breytinga á lögunum áður en þau tækju gildi, hefði það í för með sér ákveðna óvissu um framtíðarfyrirkomulag heildarlöggjafar á sviði náttúruverndar á meðan veigamikil endurskoðun færi fram á lögum 60/2013.

Að mínu mati verður að telja að slík óvissa yrði bagaleg gagnvart almenningi, hagsmunaaðilum og stofnunum á sviði náttúruverndar sem skipuleggja starf sitt í samræmi við gildandi löggjöf hverju sinni. Að auki er ekki hægt að áætla með nákvæmum hætti hversu umfangsmikil og tímafrek vinna við endurskoðun laga 60/2013 yrði og því ekki ljóst hversu langan tíma tæki að leggja fram drög að nýju frumvarpi. Það liggur hins vegar fyrir að ef endurskoðunin mundi dragast yrði nauðsynlegt að framlengja gildistöku laga nr. 60/2013, jafnvel ítrekað eins og hér hefur gerst áður í öðrum lagabálkum, og það getur ekki talist heppilegt.

Allar þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við frumvarp það sem varð að lögum 60/2013 gefa tilefni til endurskoðunar á lögunum. Vinna við slíka endurskoðun verður tímafrek þar sem um afar flókinn og viðamikinn lagabálk er að ræða. Ég tel því eðlilegt að leggja til að lög nr. 60/2013 falli brott og að nýtt frumvarp verði lagt fram síðar þegar vinnu við endurskoðun hefur verið lokið. Gert er ráð fyrir að nýtt frumvarp muni samt sem áður byggja á þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið á vegum umhverfisráðuneytisins og stofnana þess við endurskoðun löggjafar um náttúruvernd á liðnum árum.

Fari svo að Alþingi samþykki þetta frumvarp mun ég strax setja af stað vinnu innan ráðuneytisins og skipa vinnuhóp, meðal annars með fulltrúum ólíkra sjónarmiða og sveitarfélaga, til að endurskoða lögin í samráði við fagstofnanir ráðuneytisins á þessu sviði. Mun ég jafnframt leggja til að þess verði gætt við vinnuna að upplýsa umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vel um gang mála. Er það von mín að sú vinna gangi vel og um þetta mikilvæga málefni megi skapa betri sátt í þágu íslenskrar náttúru og samfélags.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.