143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra höfum áður átt orðaskipti um þá fyrirætlan ráðherrans að fella úr gildi ný náttúruverndarlög. Þó verð ég að segja að ég hef enn ekki heyrt þau rök sem ég tel fullnægjandi, hvorki í sérstökum umræðum um málið né í framsöguræðu hæstv. ráðherra núna um af hverju sú leið er valin að afturkalla lögin í stað þess að fara nákvæmlega í þær greinar sem hæstv. ráðherra telur athugaverðar við lögin sem samþykkt voru hér í vor.

Hann nefndi hér áðan í ræðu sinni að lögin sem slík einkenndust um of af boðum og bönnum, sem hlýtur að vera eðli laga sem fjalla um náttúruvernd. Hyggur hæstv. ráðherra á miklar breytingar, til að mynda hvað varðar að innleiða varúðarregluna, því að hann nefndi líka í ræðu sinni að byggja ætti á fyrirliggjandi vinnu? Erum við að fara að tala um grundvallarbreytingu á hugmyndafræði í þeim nýju náttúruverndarlögum sem hæstv. ráðherra hyggst (Forseti hringir.) hefja vinnu við ef þetta frumvarp verður samþykkt?