143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir í framsögu minni eru fjölmörg atriði og jafnvel hvert og eitt sem gefur tilefni til endurskoðunar laganna. Og þegar þau verða mjög mörg ásamt því sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, um að frumvarpið í heild sinni einkenndist um of af boðum og bönnum, þá varð það niðurstaða mín, m.a. til þess að eyða líka ákveðinni óvissu, að skynsamlegra væri að leggja til að fella lögin brott í stað þess að fresta gildistökunni og hefja heildarendurskoðun.

Auðvitað verður talsverð breyting á þegar maður lýsir því yfir að þessi lög einkennist um of af boðum og bönnum. Það á að hlusta meira á þá sem kvörtuðu hvað sárast. Í landinu eru tvö stjórnsýslustig, ríkisvaldið og sveitarfélögin, og þau telja að brotið hafi verið á rétti þeirra til að koma að þessu máli og ég ætla mér til að mynda að hlusta meira á rök þeirra í þessu máli.