143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Oft og tíðum er skynsamlegra, í stað þess að túlka fyrir fram niðurstöður eða hvað menn eru að hugsa, að hlusta eftir því hvað menn segja og rita. Ég hef sagt það hér og get sagt það enn og aftur og þúsund sinnum að það liggja fyrir umtalsverð gögn sem munu verða notuð við þessa vinnu. Ég hef líka sagt að fjölmargar athugasemdir bárust við fjölmörgum greinum þessara laga, sem eiga að taka gildi næsta vor ef þau verða ekki felld á brott, og ég tel skynsamlegast að setjast niður og reyna að ná meiri sátt við fólkið í landinu, fjölmörg félagasamtök, sveitarfélög og aðra aðila sem töldu að ekki hefði verið hlustað á þeirra rök og voru þess vegna mjög ósáttir allt til þess enda að lögin fóru hér í gegn, m.a. með frestun á gildistöku (Forseti hringir.) um eitt ár. Að því mun ég vinna (Forseti hringir.) og ég tel að það eigi ekki að leggja frekari túlkun í þau orð mín.