143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekkert svar gagnvart þeirri tillögu hæstv. ráðherra að fella lögin úr gildi í heild sinni. Eins og menn hafa hér þegar bent á mátti taka einhver einstök tiltekin atriði úr sambandi ef menn vildu skoða þau betur, eða hitt sem hefur áður gerst með löggjöf að farið er yfir það hvernig hún reynist í framkvæmd og síðan gerðar einhverjar lagfæringar þegar reynsla er komin á lögin. Og ætli mætti ekki nota þessi lög, þessar röksemdir um býsna margt ef menn eru núna allt í einu orðnir svona viðkvæmir gagnvart því að eitthvað skiptar skoðanir séu þegar verið er að ganga frá og setja niður mál af þessu tagi.

Alþingi komst að niðurstöðu. Það var gengið mjög langt til móts við þau sjónarmið sem þóttu málefnaleg í gagnrýninni eins og hún kom fram og náðist ágæt lending í mjög mörgum þáttum. En hæstv. ráðherra dugar það ekki. Það á að slá lögin af í heild sinni og þá gerist fleira en bara það að þau falla úr gildi. Þá stöðvast öll sú vinna sem hefja átti á grundvelli hinna nýju laga og það kemur fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. Þar hlakkar í mönnum að nú verða umhverfismálin ókeypis á fjárlögum næsta árs.