143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að þegar notað er hugtakið sjálfbærni sem meðal annars er notað í rammaáætlun skal tekið tillit til þriggja þátta, þ.e. umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra. Þegar þeir þættir eru síðan allir vegnir saman komast menn að niðurstöðu. Ég held að það sé rétt að taka það ekki úr samhengi við þá tilvitnun sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór með hér.

Varúðarreglan er mjög mikilvæg regla, ekki síst í umhverfisrétti og hún verður að sjálfsögðu viðhöfð eftir sem áður í endurskoðun á nýjum lögum eða við samningu á nýju frumvarpi sem, eins og hér hefur margoft komið fram, mun hefjast og hefur auðvitað verið til skoðunar í ráðuneytinu. Það mun ekki hefjast formlega fyrr en þingið hefur klárað það hvort fella eigi út þessi lög eður ei. En slík vinna verður farin af stað og hún verður unnin í samráði við alla aðila, á þau sjónarmið verður hlustað og það verður líka haft verulegt samráð við þingið, umhverfis- og samgöngunefnd, eins og hér hefur fram komið.