143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað um margt sérstakt mál sem við ræðum hér við 1. umr. því að það er ekki á hverjum degi sem lagt er til að tiltölulega nýsamþykkt lög falli brott. Það sem mig langar að nefna fyrst er hvernig Alþingi vinnur með slíkt frumvarp. Ég ætla að segja strax í upphafi að ég tel eðlilegt að farið verði mjög ítarlega til að mynda í vinnu hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég nefndi það raunar áður í þeirri sérstöku umræðu sem var um málið fyrr á þessari önn að mér fyndist mjög eðlilegt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd færi mjög ítarlega yfir lögin áður en samþykkt yrði að fella þau brott, færi mjög ítarlega yfir þá vinnu sem þar var unnin. Ég tel þegar ég hef farið yfir þá umræðu, og ég er í raun og veru rétt byrjuð að fara yfir umræðuna sem varð í þinginu um ný náttúruverndarlög, að unnið hafi verið alveg feikilega mikil vinna. Það verður að byrja á því að rifja upp.

Ég reikna með að málið muni taka alllangan tíma í meðförum þingsins en það er nógur tími fyrir hendi því að gildistaka laganna sjálfra er ekki fyrr en í apríl. Við höfum því langan tíma til að fást við málið og veitir ekki af honum því ýmsar spurningar munu vakna. Það er nóg fram undan.

Eins og allir hv. þingmenn hér inni þekkja mótast löggjöf um náttúruvernd á hverjum tíma í ríkum mæli af þeim viðhorfum sem uppi eru á þeim tíma um samspil manns og náttúru, þeim markmiðum sem eru sett á oddinn hverju sinni og að sjálfsögðu þeim framförum sem hafa orðið í náttúruvísindum og þeim viðhorfsbreytingum sem verða á hverjum tíma. Það er áhugavert ef við skoðum söguna að fyrstu lög um náttúruvernd voru sett árið 1956. Þau voru endurskoðuð árið 1971 og fór næsta endurskoðun fram í tveimur áföngum, 1996 og 1999 og þá voru samþykkt lögin sem eru í gildi ef lögin sem samþykkt voru í vor taka ekki gildi eins og hér er lagt til. Það dylst náttúrlega ekki nokkrum hv. þingmanni að gríðarleg breyting hefur orðið á allri umræðu um umhverfis- og náttúruvernd sem og alveg gífurlegar framfarir í vísindalegri þekkingu á því sviði. Þar nægir að nefna þau viðfangsefni sem eru kannski hvað mest knýjandi í samtímanum sem eru loftslagsbreytingar sem lúta að málefnum umhverfismála og umhverfisverndar, en líka gerbreytt viðhorf almennt í samfélaginu til náttúruverndar. Það er nokkuð augljóst að tími er kominn á nýja löggjöf um náttúruvernd og löggjöfin frá 1999 er að sjálfsögðu barn síns tíma. Þegar hér er rætt um að þá muni lögin frá 1999 einfaldlega halda gildi sínu held ég að ef við tökum tillit til þeirrar umræðu sem hefur orðið og þeirra framfara sem hafa orðið í almennri þekkingu á þessum málaflokki, yrði það ástand með öllu óviðunandi og hreinlega ekki hægt að sætta sig við það.

Það verður líka að rifja upp að þau lög sem eiga að taka gildi í apríl 2014 byggðust á mikilli vinnu. Ég skautaði hratt yfir það í sérstöku umræðunni og mér finnst ágætt að nýta þann örstutta tíma sem ég hef hér til að rifja það upp. Það voru haldnir fundir víða um land. Það var samin svokölluð hvítbók um náttúruvernd. Um hana barst fjöldi umsagna. Síðan var unnið frumvarp sem byggði að einhverju leyti á hvítbókinni og þeim umsögnum og svo tók frumvarpið að sjálfsögðu verulegum breytingum í meðförum Alþingis á síðasta þingi. Það er áhugavert af því að hér hefur verið rætt talsvert um hvað sé að þeim lögum sem eiga að taka gildi í apríl 2014 að komið var ríkulega til móts við ýmsar þær umsagnir sem bárust af hálfu þáverandi meiri hluta í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það má nefna að það sem var kannski hvað mest áberandi í þeirri umræðu sem varð um frumvarpið á sínum tíma var umræðan um almannaréttinn og rétt almennings til ferða um landið, ekki síst ákvæði um akstur utan vega.

Það er merkilegt ef við horfum á almannaréttinn, sem hefur skipað sess í löggjöf Íslendinga allt frá þjóðveldistímum og var sá hluti almannaréttar sem var mikilvægastur á fyrri öldum, að hann felst að mestu leyti nú orðið í lagaverki um samgöngumál en í náttúruverndarlögum hefur svo verið fjallað um þann almannarétt sem lýtur að rétti fólks til ferða um landið til að njóta útiveru og samvista við náttúruna, en ákvæði um almannarétt er að finna í þessum fyrstu lögum frá 1956.

Það má segja að með breytingum sem felast í lögunum sem eiga að taka gildi í apríl sé almannaréttur aukinn frá lögunum 1999 þar sem hann var þrengdur frá lögunum 1971 og það er í raun og veru það sem um var deilt. Í kringum almannaréttinn voru hins vegar skorður sem átti að setja við utanvegaakstri. Ég þykist viss um að hv. þingmenn vilji ekki verja utanvegaakstur en það sem málið snerist um var svokallaður kortagrunnur sem átti að koma á laggirnar til þess að skilgreina slóða og vegi. Eins og ég nefndi áðan í örstuttu andsvari mínu var sett ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Þrátt fyrir 1. mgr. 31. gr. er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á greinilegum vegslóðum sem eru að staðaldri notaðir til umferðar vélknúinna ökutækja eða fáfarnari vegslóðum þar sem hefð er fyrir akstri og slóðarnir falla að skilyrðum 2. mgr. 32. gr.“ Síðan er það sem ég kom að: „Starfshópur ráðherra sem vinnur, í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög, að greiningu vegslóða innan miðhálendislínunnar og gerð tillagna um það á hverjum þeirra skuli heimilt að aka vélknúnum ökutækjum, með eða án takmarkana, skal skila tillögum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. janúar 2014. Ráðherra skal eigi síðar en 1. janúar 2014, í samvinnu við þann ráðherra sem fer með samgöngumál, skipa starfshóp til að vinna að greiningu vegslóða á láglendi og gerð tillagna um það á hverjum þeirra skuli heimilt að aka vélknúnum ökutækjum með eða án takmarkana.“

Þarna áttu að eiga sæti fulltrúar útivistarhópa, náttúruverndarsamtaka og Vegagerðarinnar auk fulltrúa frá sveitarfélögunum og ráðuneytinu og sá hópur átti að skila tillögum sínum eigi síðar en 1. janúar 2017 og kortagrunnurinn átti síðan að vera staðfestur 1. október 2017.

Nú verð ég að taka fram að ég var ekki viðstödd alla þá umræðu sem hér varð en fylgdist þó eins vel með henni og unnt var. Þetta kannski var það mál sem almenningur tók hvað mest eftir í deilum um frumvarpið á sínum tíma í þinginu og ég lít svo á að þarna hafi verið gerð ákveðin tilraun til að skapa þá sátt sem hæstv. ráðherra er ofarlega í huga, þ.e. að setja þetta mál sem var þá umdeilt í ákveðinn farveg, setja það í ákveðinn vinnufarveg þar sem fólk hefði nægan tíma til að koma sér saman um þau sjónarmið sem ættu að vera ríkjandi. Við verðum að horfast í augu við að utanvegaakstur er vissulega vandamál og við eigum ekki, hv. þingmenn, að láta okkar eftir liggja við að koma í veg fyrir það vandamál. Við verðum hreinlega að koma í veg fyrir það vandamál. Við erum því miður enn að sjá myndir af ýmsum stöðum á landinu sem bera vott um að ekki er nægilega almenn meðvitund um skaðsemi utanvegaaksturs. Þarna var hins vegar ákveðið að setja málið í þennan vinnufarveg, ef svo má að orði komast. Í ljósi þeirra deilna sem voru í raun og veru leiddar í jörð á þennan hátt undrar mig, og slíkt hefur auðvitað gerst, það eru ýmis fordæmi fyrir því, að hæstv. ráðherra hafi ákveðið að ganga þá leið að leggja til brottfall laga í stað þess til að mynda að þessi starfshópur starfi eins og kveðið er á um í lögum og tíminn sé svo nýttur, eins og kom fram í máli mínu áðan og hjá hv. þm. Róberti Marshall, til að skoða aðrar þær athugasemdir sem hæstv. ráðherra hefur nefnt hér.

Í breytingunum sem gerðar voru í þinginu var líka komið til móts við ýmis önnur atriði, sem kunna að virðast smærri, í umsögnunum sem komu fram og þá vitna ég sérstaklega til orðskýringanna sem hér voru nefndar. Komið var til móts við ýmsar af þeim umsögnum með nánari skilgreiningum í lögunum sem svo voru samþykkt. Þar má nefna ýmislegt, muninn á viðlegutjöldum og göngutjöldum og svo mætti lengi telja. Það má því segja að reynt hafi verið að koma til móts við þau sjónarmið að einhver hugtök væru ekki nægjanlega vel skýrð, það er bæði gert í nefndaráliti meiri hlutans og líka með þeim breytingum sem lagðar eru til.

Enn fremur vil ég nefna hvað varðar frumvarpið sem við erum að fjalla um að það þarf að átta sig á því hvað felst í því að hverfa aftur til 1999. Eins og komið hefur fram bera lögin sem eiga að taka gildi í apríl vott um þær breytingar og þær framfarir sem hafa orðið í bæði viðhorfum og þekkingu þegar kemur að náttúrunni. Það lýtur að því sem ég nefndi áðan í stuttu andsvari, þ.e. innleiðingu á hinni sérstöku vernd, innleiðingu á nýju skipulagi friðlýsingar, friðunar og verndunar. Þau ákvæði bera vott um, mundi ég telja og það er rökstutt ágætlega í téðu nefndaráliti meiri hlutans á sínum tíma, og endurspegla þær breytingar sem hafa orðið á öllu réttarumhverfi umhverfis- og náttúruverndar í löndunum í kringum okkur, endurspegla þær breytingar sem við höfum tekið þátt í með því að gerast aðilar að alþjóðlegum samningum á þessu sviði. Ég tel það gríðarlegt áhyggjuefni ef afturkalla á þessi nýju lög sem endurspegla allar þær breytingar sem við höfum óbeint tekið þátt í með því að vera aðilar að alþjóðlegum samningum og hverfa til baka til ársins 1999. Við þurfum ekki að hugsa neitt voðalega lengi til að átta okkur á öllum þeim breytingum sem hafa orðið í umhverfis- og náttúruverndarumræðu á Íslandi frá árinu 1999.

Það var til að mynda á árinu 1999 sem beinlínis var stofnaður stjórnmálaflokkur um umhverfismál, sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyri. Íslendingar voru í raun og veru mjög seinir til þess að stofna grænan flokk. Við vorum líka mjög sein að koma á laggirnar sérstöku umhverfisráðuneyti. Við sjáum með því að horfa til baka að auðvitað er gríðarleg afturför í því fólgin eftir alla vinnuna sem var unnin að fara til baka til 1999. Ég tel sjálf að affarasælast hefði verið, í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur viðrað þau sjónarmið að hann telji lögin sem eiga að taka gildi í apríl 2014 ófullkomin, að við hefðum haft talsverðan tíma til að gera þær breytingar sem hæstv. ráðherra hefur nefnt og það snýr þá kannski að einhverju leyti að skilgreiningum sem hann telur ekki hafa tekið nægjanlegum breytingum. Ég nefndi áðan gjöldin, ég nefni líka ósnortin víðerni sem breyttist á sínum tíma í óbyggð svæði í meðförum nefndarinnar, einmitt af því að verið var að koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar voru við ýmsa orðanotkun. Ég tel því að affarasælla hefði verið ef hæstv. ráðherra hefði nýtt þann tíma sem hann hafði og hefur enn til að leggja til þær breytingar sem hann telur að þurfi að gera á lögunum sem eiga að taka gildi í apríl fremur en að boða afturhvarf til ársins 1999 því að við vitum hversu miklum breytingum umræðan hefur tekið.

Ég er ekki byrjuð að ræða ákvæðin sem líka var rætt talsvert um, ákvæði laganna sem eiga að taka gildi í apríl um framandi tegundir. Það er eitt af því sem var umdeilt. Þau er umdeild þó að ákvæði þessara laga byggi í raun og veru að mestu leyti á lögunum frá 1999, ákvæðin voru örugglega umdeild 1999 og þau eru enn þá umdeild og lýtur það að ýmsu sem snýr að skógrækt og hvers kyns landgræðslu. Það er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um að um sum mál í þeim efnum verður kannski aldrei fullkomin sátt, eins og til að mynda ágang á framandi tegundir. Við getum lengi setið, það náðist ekki sátt um það 1999 og það hefur ekki enn náðst sátt um það.

Virðulegi forseti. Ég er rétt byrjuð á ræðu minni og tími minn í þessum ræðustóli er liðinn. Ætli maður verði ekki að setja sig aftur á mælendaskrá til að reyna að ljúka yfirferðinni.