143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er með mjög blendnum huga sem maður tekur þátt í þessari umræðu þegar maður fær það framan í sig, eftir að hér liggur að baki tveggja ára vinna í Alþingi, margra ára vinna við að búa til hvítbók og niðurstaða sem var svo afgreidd í þinginu, að þegar ný ríkisstjórn tekur við skuli þessu vera hent til baka. Maður veltir fyrir sér og það er það sem mig langar aðeins að velta upp við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, sem þekkir vel til þingstarfa, hvort hún kannist við einhver sambærileg fordæmi um slík vinnubrögð. Hvort það sé ekki einsdæmi að menn leggi til hliðar jafn mikla vinnu án þess að gefa skýra vinnuáætlun um hverju eigi að breyta og hvað þurfi að laga og hversu langan tíma það eigi að taka.

Í öðru lagi langar mig að velta því líka upp hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um það — en nú sit ég tímabundið, a.m.k. þessa viku, í þeirri nefnd sem tekur við málinu — að eðlilegt sé að kalla til alla þá aðila sem komu að vinnunni hjá Alþingi, af virðingu við þá og að þeir fái tækifæri til að segja álit sitt á þessum breytingum. Hér horfum við upp á það að lög frá 1999 verði aftur sett í gildi og gildi þá jafnvel að minnsta kosti tvö til fjögur ár í viðbót. Við erum þá að tala um að á einum mestu umbrotatímum hvað varðar náttúruvernd og breyttar forsendur í tengslum við hana verði 20 ára gömul lög í gildi á Íslandi í þeim efnum. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns, hvort hún sé ekki sammála mér um að það væri full ástæða til að fá alla þá aðila að borðinu og gefa sér þann tíma sem það mun taka.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á því hvað liggi að baki. Hvað liggur raunverulega að baki? Hvaða skilaboð er verið að gefa með því að kasta þessu aftur til þingsins? Er þetta valdahroki, er þetta hagsmunagæsla, er þetta vantraust á Alþingi? (Forseti hringir.) Hafa einhverjir hlutir gerst sem þingmaðurinn sér sem réttlæta að gera þetta með þessum hætti?