143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom mjög ítarlega inn á þann ágreining sem var við setningu laganna á síðasta kjörtímabili og rakti hann ágætlega. Ég hefði kannski tekið mun sterkara til orða en hv. þingmaður, það liggur í hlutarins eðli, en við boðuðum það vissulega í kosningabaráttunni að við mundum endurskoða lög um náttúruvernd og ég tel eðlilegt að byrja upp á nýtt og vinna ný lög í fullri sátt eins og hefur komið fram. Ég vona að svo verði í umhverfis- og samgöngunefnd enda hefur ríkt þar ágætissamkomulag hingað til og ég vona að svo verði áfram.

Ég vil þó gera athugasemdir við orðaval hv. þingmanns þegar hún segir ítrekað í ræðu sinni að það sé verið að hverfa aftur til ársins 1999. Það er ekki verið að hverfa aftur til ársins 1999, það er í rauninni bara verið að halda áfram með núgildandi lög sem eru að mínu mati ágæt um margt en þarfnast þó breytinga.

Ég greindi það líka í orðum hv. þingmanns að hún teldi þetta mál þola mikla umræðu og langan tíma, jafnvel langt fram á næsta ár. Þá spyr ég hv. þingmann: Er hér verið — jafnvel undir rós — að boða til einhvers konar málþófs? Megum við eiga von á því að stjórnarandstaðan (ÖS: Það kæmi þér á óvart.) (Gripið fram í.) reyni með öllum tiltækum ráðum að þæfa þetta mál? Ég bind miklar vonir við gott samráð og samstarf (Forseti hringir.) í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.