143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er hér sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar í forföllum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, 1. varaformanns umhverfis- og samgöngunefndar, sem mun af okkar hálfu í Samfylkingunni fylgjast með þessu máli í nefndinni og taka þátt í þeirri umfjöllun sem þar verður. Ég mun við 1. umr. kannski fyrst og fremst einbeita mér að því sem lýtur að vinnubrögðunum í málinu og með hvaða hætti það er fram komið og hvernig unnt væri að reyna að bæta úr því í meðförum þingsins. Eins og fram kom hjá þeim hv. þingmanni sem talaði á undan mér er með frumvarpinu verið að hverfa aftur til ársins 1999, í raun og veru til liðinnar aldar í umhverfismálum.

Framganga hæstv. ráðherra er auðvitað mikið umhugsunarefni vegna þess að sú gjörð að leggja einfaldlega fram afturköllun á öllu því starfi sem unnið hefur verið hlýtur að kalla á spurningar hér í þinginu, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi áðan. Hvað býr að baki því að stíga með þeim hætti til jarðar í málaflokki þar sem einmitt er mikilvægt að við ræðum og vinnum saman að lausnum og því að setja niður deilur? Er þetta valdhroki? Það er auðvitað það fyrsta sem læðist að manni þegar maður sér framgöngu af þessu tagi. (Gripið fram í.) Er engin virðing fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið? Er tillit tekið til annarra sjónarmiða eða er bara gengið fram af fullu afli? Eða eru einhverjir sérhagsmunir á bak við? Er eitthvað í bígerð sem kallar á það að ganga svona dólgslega fram, virðulegur forseti, verð ég að leyfa mér að segja? Eða hvað er það sem veldur þessu?

Nú verða auðvitað slys og vissulega getur það hent að ráðherra í einhverjum málaflokki gangi fram með einhverjum þeim hætti að stjórnarandstöðunni á viðkomandi tíma finnist vera gengið á hlut sinn, hann gangi of langt eða sýni öðrum sjónarmiðum eða málaflokkum ekki virðingu, og aldrei er hægt að koma í veg fyrir slíkt. En í þessum málaflokki, hjá þessum hæstv. umhverfisráðherra, er það því miður þannig að það er hvert málið sem rekur annað.

Í fyrsta lagi er til að taka, fyrir utan þetta mál, þegar hæstv. ráðherra tók að sér þennan mikilvægasta málaflokk veraldarinnar á okkar tímum sem svona eitthvert aukaverkefni og lýsti því yfir að hann væri að skoða það hvort nokkur þörf væri á umhverfisráðuneyti. Það viðhorf sem sú yfirlýsing endurspeglar er náttúrlega til þess fallin að vekja mörgum hér í þinginu alvarlegar áhyggjur. Þá bætir ekki úr skák þegar hver ríkisstjórnin á fætur annarri, hver iðnaðarráðherrann á fætur öðrum, m.a. úr Framsóknarflokknum, þegar allir stjórnmálaflokkar í þinginu hafa verið að reyna að vanda sig eftir fremsta megni við að vinna að heildstæðri rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúru Íslands, þar sem á endanum voru nokkrir kostir, einkanlega í Þjórsá, sem pólitískur ágreiningur var um hvað gera skyldi við á lokasprettinum, að þegar þeim gríðarlega mikilvæga áfanga í umhverfismálum hafði verið náð kemur hinn nýi umhverfisráðherra og gefur út yfirlýsingar um að Norðlingaalda, sem allir í því ferli, allir sem að því höfðu komið, höfðu bara tekið beint út af borðinu, að sá kostur skyldi rifinn upp og allur sá friður sem þó hafði tekist að skapa millum ólíkra sjónarmiða, millum stjórnmálaflokka í þinginu og milli atvinnulífsins og umhverfisverndarfólks.

Það er ekki síst í því samhengi þeirra fyrri athafna hæstv. ráðherra sem maður skoðar þetta stutta frumvarp þar sem allri hvítbókinni, allri samráðsvinnunni, öllu starfinu í þinginu er bara vikið til hliðar eins og það skipti engu máli. Nú kann vel að vera að einhver annar ráðherra hafi gert það áður. Það bætir það ekkert. Þetta er ekki góð pólitík, virðulegi forseti.

Við hér á Alþingi sem þurfum þess mjög með að ávinna okkur aukið traust hjá almenningi, skilning og stuðning í samfélaginu, þurfum ekki á því að halda að ganga svona fram hvert gagnvart sjónarmiðum annars. Við þurfum þvert á móti á því að halda að við ræðumst við í þessum sal um málefni eins og náttúruvernd og reynum að ná samkomulagi um hvernig sjónarmið geti mæst. Ekki síst í þessu máli sem varðar náttúru Íslands sem er okkur öllum kær sama hvar í flokki við stöndum og við viljum öll kappkosta að vernda og gæta svo sem kostur er þó að okkur kunni að greina á um leiðir.

Ef það er afstaða hæstv. ráðherra, sem er bara afstaða og geta verið fullkomin rök á bak við, að það gangi ekki að frumvarpið sem samþykkt var á síðasta þingi af öðrum meiri hluta hér í þinginu taki gildi óbreytt, þá er það bara heiðarleg afstaða. Ég hefði talið að það færi svo miklu betur á því að hæstv. ráðherra upplýsti um þá afstöðu sína og óskaði eftir samstarfi annarra stjórnmálaflokka í þinginu um það hvernig mætti vinna með málið þannig að það í einhverjum áföngum tæki gildi en einhverjir þeir þættir sem ráðherrann væri ósáttur við væru endurskoðaðir, líka í ljósi nýs þingmeirihluta, og þess freistað að ná saman um það á Alþingi með hvaða hætti þessi lög gætu tekið gildi. Einnig þegar horft er til þess að þau efnisatriði, sem ég ætla ekki að fara ýkja djúpt í við 1. umr., eins og ég sagði áðan, sem kannski helst hefur verið deilt á, varúðarreglan, mengunarkvótareglan, sem hét svo í eina tíð og hefur víst vikið fyrir nýju og ógagnsærra nafni, greiðsluregla eða hvað það nú er, og sérstök vernd, þetta eru allt saman þættir sem hafa verið til umfjöllunar á Alþingi í 20 ár, atriði sem hafa verið flutt af umhverfisráðherra eftir umhverfisráðherra, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, m.a. ríkisstjórnum sem báðir stjórnarflokkarnir núverandi hafa átt aðild að, atriði sem hafa verið lögð hér fram sem stjórnarfrumvörp og getur ekki verið sá ágreiningur hér á milli flokka um að víkja þurfi öllu því starfi í burtu.

Hvað er ráðherrann búinn að vera að gera í hartnær hálft ár? Hvers vegna hefur nýkjörinn ráðherra ekki nýtt tímann ef það er svona óskaplega brýnt að endurskoða einhver einstök atriði í frumvarpinu? Af hverju er hann ekki löngu byrjaður á þeirri vinnu? Af hverju hefur hann ekki fyrir löngu síðan óskað eftir atbeina okkar í stjórnarandstöðunni að því með hvaða hætti mætti vinna með málið þannig að það öðlaðist gildi í áföngum eða einhverjum einstökum atriðum væri breytt? Staðreyndin er náttúrlega sú að hæstv. ráðherra hefur ekki gert neitt í málinu og finnst það sæma að ganga inn í þingið með strokleður yfir vinnu sem fjöldinn allur af fólki, bæði embættismenn, stjórnmálamenn auðvitað — látum það nú vera, það verðum við að búa við, stjórnmálamenn, að okkar vinna getur verið að engu gerð með einum kosningum — en líka margvísleg samtök fólks úti um allt land sem hafa auk sérfræðinga og embættismanna lagt hér hönd á plóg í mörg, mörg ár.

Ég vil hvetja til þess að þingið taki á því sem hæstv. ráðherra hefur látið undir höfuð leggjast og þingnefnd sem sannarlega á að ráða úrslitum mála og standa fyrir lagasetningu — eins og hv. þm. Pétur Blöndal og margir aðrir þingmenn eru einmitt að flytja sérstakt þingmál um — þ.e. umhverfis- og samgöngunefnd, láti ekki alla þessa vinnu fara til ónýtis, heldur úr því að svona er komið, inn í þetta öngstræti, verði kallaðir til í nefndina þeir sem komu að þeirri vinnu á fyrri stigum, þeir sem voru til ráðgjafar á síðasta kjörtímabili, og ræði við nefndina um hvaða leiðir þeir sjá til þess að láta sjónarmið mætast og kannski nýjan þingmeirihluta endurspeglast meira í niðurstöðu málsins að endingu. Það verður auðvitað ekki fram hjá því horft að alþingiskosningar hafa farið fram. Það er eðlilegt að einhverjar pólitískar áherslubreytingar verði. En að allri þessari vinnu sé bara hent og það á þeim grundvelli einum að það eigi svo kannski að hefja eitthvert ferli sem kannski ljúki einhvern tímann, það er ekki boðlegt finnst mér fyrir þingið.

Ef þingið vill breyta þeirri löggjöf sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur afgreitt og Alþingi samþykkt þá gerir þingið það bara sjálft og gerir það í góðu starfi í nefnd í samvinnu við þá aðila sem að því máli þurfa að koma. Ég vil fyrir hönd okkar í Samfylkingunni lýsa mig algerlega reiðubúinn til slíkrar samræðu ef vilji er til þess af hálfu stjórnarmeirihlutans í þinginu. Af því ég held að hvað svo sem menn treysta sér til að segja í ræðustólnum sjái það hver maður í hendi sér að þetta eru ekki góð vinnubrögð. Það getur vel verið að einhver ráðherra hafi gert þetta áður, jafnvel einhver ráðherra úr mínum eigin flokki, en það gerir það ekkert betra. Þetta eru svolítið vinnubrögð liðinnar aldar.

Við eigum að reyna í miklu ríkari mæli að ræða málin okkar á milli og komast að einhverri þeirri niðurstöðu sem getur haldið í meira en eitt kjörtímabil. Það sem stjórnarmeirihlutinn núna verður líka að muna er að eftir kosningarnar í vor koma aðrar kosningar. Þá kann vel að vera að hann verði fjarri stjórnartaumunum að þeim loknum.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að við séum að kollsteypa löggjöf, setja lög og afturkalla þau á víxl frá einu kjörtímabili til annars, síst af öllu í málaflokkum eins og hér er um að ræða, náttúruvernd á Íslandi, sem er í raun og veru málaflokkur sem hver einn og einasti Íslendingur, 320 þúsund manns, á hlut í. Það er náttúrlega ekki með nokkrum hætti boðlegt að við séum að vinna það með þeim hætti að því sé kollsteypt frá einu kjörtímabili til annars. Við hljótum öll að hafa metnað til þess að slaka eitthvað á okkar ýtrustu eigin sjónarmiðum ef það mætti verða til þess að við Íslendingar ættum saman heildarmynd og löggjöf á þessu sviði sem þurfi ekki að kollvarpa á fjögurra ára fresti, heldur sé í öllum helstu atriðum sammæli um hjá stærstum hluta þingmanna og þjóðinni.