143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir ótrúlegt að það sem hv. þingmaður nefndi búi að baki vegna þess að það er nú svo um varúðarregluna og raunar sérstöku verndina, og samspil þeirra reglna, að það eru auðvitað atriði sem hafa verið flutt áður af öðrum ríkisstjórnum en hinni síðustu, þau hafa verið flutt fram af ráðherrum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, af ríkisstjórnum sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa (Gripið fram í.) setið í og míns eigin flokks sem átti nú upphafið að því einhvern tímann snemma á síðasta áratug síðustu aldar. Það kann auðvitað að vera að það séu sérhagsmunaaðilar, einhverjir framkvæmdaaðilar úti í samfélaginu, sem telji að það verði ódýrara og auðveldara fyrir sig að fara í einhver verk þegar þeir eru lausir við þessar reglur. Ég tel hins vegar að það sé á miklum misskilningi byggt vegna þess að þetta eru reglur sem eru í gildi í fjölmörgum löndum þar sem er eigi að síður miklu meiri atvinnuvegafjárfesting en við höfum hér í landinu og hafa þær ekki hamlað henni þar. Ég held að það séu aðrir hlutir sem varna fjárfestingu og framkvæmdum hér í landinu en umhverfislöggjöfin okkar, sannarlega.