143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er afar varkár, finnst mér, í hugleiðingum sínum í þessum efnum og vill ekki ganga svo langt að gefa sér að beinlínis andstaða við varúðarregluna og aðrar slíkar grundvallarreglur sé hérna á ferðinni, hugsanlega frekar að einhverjir telji þetta leiðina í mark hjá þeim með einhverjar framkvæmdir. Það rímar svo sem við talið um reglusetninguna, að afnema hana, koma hjólum atvinnulífsins í gang, komast áfram eins og menn tala mikið um, sem virðist því miður vera gamla hugsunin, stóriðjukeyrsluhugsunin, að sullast bara áfram með eitthvað slíkt. Það er verið að senda Landsvirkjun tóninn þessa dagana eins og við heyrum.

Mér finnst þetta umhverfi ískyggilegt, ég verð að segja alveg eins og er. Það fer dálítill hrollur um mann. Ég er ekkert endilega viss um að við séum einu sinni að fara bara einn og hálfan áratug aftur í tímann, mér finnst glitta í viðhorf sem eru jafnvel enn eldri þegar stóriðjubrjálæðið var enn blindara. Kannski eigum við að þakka fyrir að menn fóru ekki aftur í náttúruverndarlögin frá 1973.