143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Já, virðulegur forseti, það er hverju orði sannara hjá hv. þingmanni. Hér er verið að hverfa aftur til liðinnar aldar. Auðvitað vekur hjá manni áhyggjur þessi einfeldningslega nálgun að eflingu atvinnulífs sem er á því byggð að þeim mun færri reglur sem séu í gildi þeim mun öflugra atvinnulíf muni menn uppskera.

Ég held að það viti allir sem vilja vita að í þeim samfélögum t.d. hér í kringum okkur þar sem einmitt þessar reglur, umhverfisreglurnar, eru hvað sterkastar og öflugastar, er verið að fjárfesta í hvað bestum störfum í heiminum í dag. Þar er efnahagslegur uppgangur hvað mestur. Þar eru þjóðartekjur á mann umtalsvert meiri en hér á Íslandi þótt hér séu reglurnar miklu færri.