143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að því er lýtur að atvinnustefnu og samhengi við annað sem er að gerast er auðvitað hægt að sjá þetta skref sem hluta af ákveðinni örvæntingu sem virðist gæta. Það er verið að stíga skref í átt til þess að rífa upp þá sátt sem hefur verið um Norðlingaöldu. Það er öllum ljóst hvaða ástæður gætu verið að baki því að fara í þann mjög svo sérstaka leiðangur, að ekki sé meira sagt, þegar það síðan er lagt saman að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur uppi mjög stór orð á haustfundi Landsvirkjunar um þann pólitíska þrýsting sem sé á fyrirtækinu um að útvega eitthvað sem hingað til hefur ekki tekist að útvega og að hér kemur svo fram frumvarp um að ryðja úr vegi helstu reglum sem gætu hugsanlega verið fyrir einhverjum á þessu sviði.

Auðvitað er hægt að sjá þetta í samhengi og hafa af því áhyggjur að einhver örvænting sé farin að ríkja um atvinnuuppbyggingu á næstu missirum, en ég ætla að minnsta kosti að vona að sú afstaða sé bundin við mjög fáa stjórnmálamenn og sé ekki ráðandi í ríkisstjórn Íslands. Ég er þeirrar sannfæringar að við Íslendingar höfum margar ástæður til að vera bjartsýn, margt í efnahags- og atvinnulífi okkar horfir til betri vegar og við þurfum ekki á neinum neyðarúrræðum að halda, hvorki að fórna Þjórsárverum né knýja Landsvirkjun til þess að selja orkuna á útsöluprís eða ryðja úr vegi sjálfsögðum reglum í umhverfisvernd á Íslandi.