143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé í húsinu, vilji kannski „vera memm“.

(Forseti (KLM): Forseti mun gera hæstv. ráðherra þau boð að nærveru hans sé óskað.)

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma að tala við okkur vegna þess að ég er með einlægar spurningar sem ég hefði gaman af að fá svör við. Ég skal viðurkenna að stundum er ég heldur kaldhæðinn og þegar ég las þetta frumvarp sem hér er til umræðu þá gat ég ekki að því gert að hlæja svolítið upphátt, en það er kannski meinhæðni. En mig langar til að deila því með öðrum og til þess að það sé á hreinu hvað við erum nákvæmlega að tala um þá ræðum við hér frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruvernd, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. gr.

Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem taka áttu gildi 1. apríl 2014, falla brott.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég held að ég hafi aldrei séð styttra frumvarp á minni stuttu þingsetu, en ég gat ekki annað en hlegið vegna þess að hér er auðvitað um að ræða eitt af stærstu málefnunum sem Íslendingar fást almennt við. Mér þykir ótrúlegt að hægt sé að taka svo stóra ákvörðun með svo litlum texta, þótt það sé reyndar í sjálfu sér ekki stórt vandamál. En mér þykir það ótrúlega djarft í raun og veru að gera það og koma ekki einu sinni með neitt, ég meina ekkert, til að setja í staðinn. Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem ber hér að afnema eru heilar 15 blaðsíður, sem þó nokkuð mikil vinna liggur á bak við, og eiga að taka við af lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem komast fyrir á níu síðum, rétt rúmlega átta síðum.

Hér er því um heilmikið efni að ræða, fyrir utan auðvitað hvítbókina sem er nógu stór og þung til að slasa fullorðinn mann. Að það sé einfaldlega hægt að afnema þessi lög með svo, hvað segir maður, „brútal“ texta þykir mér alveg stórmerkilegt. Það hlýtur vissulega að vera eitthvað í þessum nýju lögum, sem hefðu átt að taka gildi 1. apríl 2014, sem hefði mátt vera inni. Sérstaklega ef talað er um sátt. Sérstaklega ef talað er um að vinna hlutina í sameiningu.

Nú má kannski vel gagnrýna fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa ekki haft nóg samráð, en er þá ekki mál að sýna aðeins betri vinnubrögð sjálfur? Er það ekki við hæfi? Er ekki við hæfi að í stað þess að gagnrýna slík vinnubrögð eingöngu og hafa þau síðan eftir, að reyna frekar að sýna meiri lit?

Nú langar mig að nefna sérstaklega þingsályktunartillögu sem var lögð fram af hv. þm. Pétri H. Blöndal og sá sem hér stendur var meðflutningsmaður að. Þar er skorað á ríkisstjórnina að láta fleiri mál fara til nefndar, láta fleiri mál vera unnin frá upphafi í nefndunum. Þannig væri hægt að ná miklu meiri sátt. Hér er endalaust kvartað um að ekki sé næg sátt þó að greinilega sé um grundvallaratriði að ræða sem sátt ríkir ekki um. Stundum þarf bara að hafa það, gott og vel, en hefði vinnan byrjað í nefnd þá hefði kannski verið hægt að ná betri samstöðu á síðasta þingi. Hvernig væri að byrja þann leik núna? Hvernig væri að leggja það fyrir nefnd hvernig hægt sé að vinna úr þessum lögum frekar en að slátra þeim einfaldlega með svo sem eins og einni línu?

Mig langar að nefna sérstaklega nokkur ákvæði sem ég skil ekki hvers vegna mega ekki vera með. Það er til dæmis 8. gr. laga nr. 60/2013, sem varðar vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku. Með leyfi forseta:

„Ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna skulu eins og kostur er byggja á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa og jarðfræði landsins. Þá skal og tekið mið af því hver áhrif ákvörðunarinnar muni verða á þessa þætti. Krafan um þekkingu skal vera í samræmi við eðli ákvörðunar og væntanleg áhrif hennar á náttúruna.“

Mátti þetta ekki vera með? Mátti frumvarpið ekki vera þrjár greinar; 1. gr. sem afnemur lögin, 2. gr. sem inniheldur vísindalegan grundvöll ákvörðunartöku og síðan 3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi. Mátti það ekki vera þannig?

Og mátti varúðarreglan ekki vera með? Maður hefði nú haldið að hún væri frekar sjálfsögð. Mikið hefur verið rætt um hana hér þannig að ég ætla ekki endilega að ræða hana mjög mikið, en manni þykir hún vera skynsamleg og ég gat ekki betur heyrt af ræðu hæstv. ráðherra en að hann vildi hafa hana með í endurskoðun laganna. Þá velti ég fyrir mér: Hvers vegna er hún ekki einfaldlega með? Lögin sem taka áttu gildi eru 15 blaðsíður af heilmikilli vinnu sem tók mörg ár. Það hlýtur að vera eitthvað, ekki endilega mikið, en eitthvað smá, eitthvað pínupons sem má vera eftir, sem taka má gildi 1. apríl 2014 án þess að hér fari allt til fjandans vegna þess að aðilar geti ekki hafist handa af ótta við framtíðina.

Það minnir mig reyndar á annan punkt sem er þessi: Er ekki bara fínt að aðilar vinnumarkaðarins viti að þeir geti vænst breytinga á náttúruverndarlögum því að vissulega stendur það til, er það ekki? Virðulegi forseti. Stendur ekki til að endurskoða lög um náttúruvernd? Það hlýtur að vera eitthvað í þessum 15 blaðsíðum sem aðilar vinnumarkaðarins mega taka til sín strax og gera að minnsta kosti ráð fyrir að gerist kannski.

Það er önnur grein sem mér þykir svolítið undarlegt að sé ekki með, það er 11. gr., um ábyrgð á kostnaði. Til að vera skýr þá er það 11. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, þ.e. lögin sem hér skal afnema, og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Framkvæmdaraðili skal bera kostnað af því að koma í veg fyrir eða takmarka spjöll á náttúrunni sem af framkvæmd hans hlýst að því marki sem það telst ekki ósanngjarnt með hliðsjón af eðli framkvæmdarinnar og tjónsins.“

Nú verð ég að viðurkenna að ég á mjög bágt með að kalla mig svakalegan hægri mann, svakalegan vinstri mann eða svakalegan sósíalista eða kapítalista en mér sýnist persónulega að það sé akkúrat hin fínasta kapítalíska lausn á vandamálum á borð við umhverfisvernd að gefa hlutunum verðmiða, að það kosti að menga, að það kosti að ganga á náttúruna. Það er hin kapítalíska leið. Ég hefði haldið að ef eitthvað væri til staðar í þessu frumvarpi sem svokallaðir hægri menn, hvað svo sem það á nákvæmlega að þýða, gætu sæst á, væri það slík ábyrgð á kostnaði. Maður veltir fyrir sér: Hvers vegna ekki? Hver annar ætti að bera ábyrgð á þeim kostnaði? Samfélagið, hvers vegna? Auðvitað er það framkvæmdaraðilinn sem á að bera ábyrgð á því. Vegna þess, eins og ætti ekki að þurfa að fræða mikla kapítalista um, að það skiptir verulegu máli að ábyrgð á skaða sé á réttum höndum.

Það er oft gagnrýnt við vinstri stjórnir og svokallaða sósíalista að þeir kunni ekki að fara með eignir vegna þess að allir eigi eignirnar. Þeir kunni ekki að fara með náttúruna vegna þess að það sé enginn skýr eignarréttur. Það séu ekki skýrir hagsmunir fyrir því að vernda náttúruna. Sá sem á eignina á að hafa þessa skýru hagsmuni. Þetta er skref í þá átt að skýra þá hagsmuni og láta þá hagsmuni standa þar sem þeir eiga heima, nefnilega hjá framkvæmdaraðilanum. Hvers vegna er þá það ekki með? Hvers vegna er ekki 11. gr. laganna með? Jafnvel bara til þess að vara aðila atvinnulífsins við því að hugsanlega gerist það einhvern tímann að þeir þurfi að fara að bera almennilega ábyrgð á þeim spellvirkjum sem verða af völdum aðgerða þeirra. Maður hefði haldið að það væri fullkomlega eðlilegt.

Síðast en ekki síst langar mig til að tala um pólitískan óstöðugleika. Þetta er ekki í fyrsta sinn og því miður ekki í síðasta sinn sem það atriði ber á góma. Oft er kvartað undan því á erlendum vettvangi að þegar ný ríkisstjórn taki við hér sé öllu kollvarpað. Þetta er alveg skólabókardæmi um það. Ég get reyndar ekki ímyndað mér skýrara dæmi um þetta. 15 blaðsíður af heildarendurskoðun sem tók mörg ár á einni af mikilvægustu löggjöf landsins, tekin út svona. [Þingmaður smellir fingrum.] Það er ekki pólitískur stöðugleiki. Það er pólitískur óstöðugleiki. Ég bendi aftur á að ef hæstv. ráðherra hefur út á það að setja við fyrrverandi ríkisstjórn að hafa látið svona ætti sú ríkisstjórn sem nú situr að láta kannski aðeins betur. Bara aðeins betur, ekki mikið betur, bara smá, pínupons. Það væri bylting.

Það er ekki fleira sem ég hef um þetta að segja í nema það að við endurskoðun náttúruverndarlaga vænti ég þess fastlega að hugmyndin sé að bæta lögin, ekki að bæta aðstöðu einkaaðila til þess að ganga á náttúruna því að eitt hefur gerst síðan 1999, árið sem núgildandi lög tóku gildi. Það er það að hér hefur orðið sprenging í túrisma eða ferðamannaþjónustu, eins og maður segir á góðri íslensku, virðulegi forseti. Við því þarf að bregðast. Hér ganga um landið hundruð þúsunda manna á ári hverju sem náttúran okkar er ekki gerð til þess að standa undir. Við þurfum því breytingar á náttúruverndarlögum. Það er ekkert ef eða kannski. Það þarf að gerast og það þarf að gerast frekar fljótt.

Að reyna að halda uppi sömu löggjöf nú árið 2013 og var sett árið 1999 áður en þessi sprenging varð í ferðamannaiðnaði — ja, ég veit ekki hverju ég á að líkja því við en það getur ekki verið að við ætlum að halda áfram að hafa þá löggjöf. Við hljótum að líta náttúruna öðrum augum núna en við gerðum 1999. Ég trúi ekki öðru og því velti ég fyrir mér: Hvað á að koma í staðinn? Við heyrum ekkert um það. Hérna kemur ekki stafkrókur fram um hvað eigi að koma í staðinn. Hér eru lögin einfaldlega afnumin og lögin frá 1999 skilin eftir eins og hér hafi ekkert gerst síðan þau voru sett.